27/04/2024

Þróunarsetur á Hólmavík í fjárlagafrumvarpi

Í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram á Alþingi í gær fyrir árið 2008 er gert ráð fyrir 9 milljóna framlagi til Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, vegna Þróunarseturs á Hólmavík. Þar segir að Strandabyggð hafi í hyggju að koma á fót þróunarsetri á Hólmavík þar sem fyrirhuguð sé sambærileg starfsemi og í Þróunarsetri á Ísafirði. Í undirbúningi sé verkefni sem byggi á hugmyndum um stofnun framhaldsdeildar, Héraðsskjalasafns og starfsaðstöðu fyrir stofnanir og fyrirtæki. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að ráða starfsmann við að undirbúa stofnun Þróunarseturs á Hólmavík og vinna að uppbyggingu atvinnustarfsemi innan setursins.

Nýja staðan sem þarna er talað um hefur ekki enn verið auglýst, en fyrir eru Atvinnuþróunarfélagið og sveitarfélög á Ströndum með samstarf um atvinnufulltrúa með aðsetur á Hólmavík. Viktoría Rán Ólafsdóttir gegnir því starfi.

Samkvæmt heimildum strandir.saudfjarsetur.is er ekki ákveðið hvar Þróunarsetrið verður til húsa, því sveitarstjórn Strandabyggðar hafi gert ráð fyrir framhaldsskóladeild, Héraðsskjalasafni, Héraðsbókasafni og námsveri í húsinu að Höfðagötu 3. Mun þá líklega vera lítið pláss eftir fyrir Þróunarsetur og skrifstofur. Fundur mun vera fyrirhugaður á morgun með sveitarstjórn og Aðalsteini Óskarssyni framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélagsins og Fjórðungssambands Vestfirðinga til að ræða þessi mál.