22/12/2024

Þriðja frægasta höfuð Íslandssögunnar til sýnis

Sauðfjársetur á Ströndum sem er til húsa í Sævangi við Steingrímsfjörð opnaði á dögunum sérsýningu um eina þekktustu kind Íslandssögunnar, hina fótfráu Herdísarvíkur-Surtlu. Árin 1951-52 var Surtla hundelt af smölum, hundum og skotmönnum, í kjölfarið á fjárskiptum á svæðinu frá Hvalfirði að Rangá vegna mæðiveikinnar. Kindin varð goðsögn þegar í lifanda lífi, en yfirvöld gripu að lokum til þess örþrifaráðs að leggja fé til höfuðs henni. Eftir margra klukkustunda eltingaleik þann 30. ágúst 1952 var Surtla felld ofan við Herdísarvík. Sauðfjársetrið hefur nú fengið höfuð Surtlu að láni frá Sigurði Sigurðarsyni dýralækni og hefur til sýnis í safninu í sumar ásamt umfjöllun um kindina.

"Örlög Surtlu vöktu mikla athygli á sínum tíma og hörð viðbrögð fjölmargra sem töldu að kindin hefði átt skilið að lifa, enda var kindin bersýnilega ekki mæðiveik," segir Arnar S. Jónsson framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins sem segir að kindin hafi orðið eins konar táknmynd og holdgerfingur frelsisins í ýmsum blaðagreinum. Arnar segir aðspurður að hann búist við að margir komi í Sævang til að kíkja á gripinn í sumar, enda sé þarna á ferðinni þriðja frægasta höfuð Íslandssögunnar: "Það eru líklega bara höfuðin af Mími og Gretti sterka Ásmundarsyni sem trompa hausinn af Surtlu í sögu þjóðarinnar. Og það er bara þessi eini af þessum þremur sem er ennþá varðveittur."

Önnur sérsýning opnaði í Sauðfjársetrinu fyrir nokkru. Á Furðuleikum Sauðfjársetursins sem fram fóru 29. júní veitti Arnar S. Jónsson framkvæmdastjóri viðtöku glæsilegri sýningu um eyrnamörk, Þrírifað í þrístýft og þrettán rifur ofan í hvatt, en hún er staðsett í vísindahorni Sauðfjársetursins. Sýningin var unnin af nemendum Reykhólaskóla í samvinnu við kennarana Kolfinnu Ýr Ingólfsdóttur og Rebekku Eiríksdóttur, en á henni eru eyrnamörkum gerð ítarleg skil með óvenjulegum og skemmtilegum hætti. Á sýningunni gefur einnig að líta bæjarmörk af öllum bæjum í Reykhólahreppi.

Sauðfjársetur á Ströndum er staðsettt í Sævangi við Steingrímsfjörð, 12 km. sunnan við Hólmavík.