29/05/2024

Þjóðhátíðarkaffihlaðborð í Sævangi

Ágætis aðsókn hefur verið að Sauðfjársetrinu í Sævangi í byrjun sumars. Að sögn Arnars Jónssonar framkvæmdastjóra setursins fór vertíðin rólega af stað, en svo virðist sem íslenskir ferðamenn hafi drifið sig út um síðustu helgi og hafið rúntinn um Strandir. Á morgun, þjóðhátíðardaginn 17. júní, verður veglegt kaffihlaðborð í Sævangi frá kl. 14:00-18:00. Starfsmenn setursins og allsráðendur í eldhúsinu, þær Brynja Rós Guðlaugsdóttir og Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir, hafa að undanförnu staðið í ströngu við að útbúa tertur sem ættu meira að segja að koma fastagestum setursins á óvart. Ókeypis aðgangur verður að sögusýningunni Sauðfé í sögu þjóðar allan daginn.