26/04/2024

Það voru önnur sjónarmið á milli landshluta

Aðsend grein: Guðjón Hjörleifsson, þingmaður
Undirritaður hefur verið formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis frá því í ársbyrjun 2004. Ég hef verið spurður að því hvernig samstarf gangi milli Eyjamannsins og sjávarútvegsráðherrans af Vestfjörðum. Það hefur aldrei borið skugga á okkar samstarf hvort sem það er á Alþingi, eða þegar ég var bæjarstjóri í Eyjum til 12 ára og þurfti oft að leita til þingmanna. Það er sérstaklega gott að vinna með kallinum (við erum víst jafn gamlir). Það er mikilvægt að gagnkvæmur trúnaðar sé á milli okkar í okkar störfum og hefur sú samvinna verið til mikillar fyrirmyndar.

Ólík sýn

Í áranna rás hefur verið gjá á milli Eyjamanna og Vestfirðinga í umræðunni um sjávarútvegsmál. Það hefur tekið tíma að þróa núverandi sjávarútvegskerfi og taka af sem flesta hnökra, en nú er svo komið að þegar Eyjamenn og Vestfirðingar hittast þá ræða þeir meira um veðrið en sjávarútvegskerfið, þó svo menn tali vitaskuld enn um aflabrögð. Nú eru allir sem einn sem starfa í sjávarútvegi staðráðnir í að byggja upp sterkari stoðir undir sjávarútveginn og þar með samfélagið í heild.

Samgöngumál

Ef það er eitthvað annað en sjávarútvegur sem Vestfirðingar og Eyjamenn eiga sameiginlegt þá eru það öflugar samgöngur. Bættar samgöngur eru í dag stærsta atvinnumál á landsbyggðinni. Sú samgönguáætlun sem nú er í meðferð samgöngunefndar mun gerbreyta búsetuskilyrðum á landsbyggðinni. Þar er tekið á flestum málum, en ljóst er að ekki er hægt að ljúka öllum framkvæmdum innan þessarar áætlunar, en áætlunin er samt sem áður mjög metnaðarfull.

Sterk staða

Norðvesturkjördæmi er með mjög sterka stöðu hvað varðar þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Þeir hafa sjávarútvegsráðherra, samgönguráðherra svo og  "Oddinn" sem varaformann fjárlaganefndar. Það er mikilvægt fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðvesturkjördæmi að fá gott brautargengi í komandi kosningum. Þið vitið hvað þið hafið, ekki hvað þið fáið.

Guðjón Hjörleifsson, alþingismaður og Eyjapeyi.