25/04/2024

Já, víst má segja það

Aðsend grein: Guðbrandur Sverrisson
Það er ýmislegt að, segir Gísli Einarsson, og kveinkar sér örlítið undan ”velmeguninni”. Þetta er hárrétt hjá Gísla sem oftar en ekki er besti fréttamaður RÚV og fellur sjaldan í þá algengu gryfju fréttamanna að telja ekkert frétt nema það sem neikvætt er. En þarna var því miður byrjað á öfugum enda og með ansi miklu offorsi.

Ég vona að vel haldið fréttafólk RÚV hafi aldrei lent í þeirri stöðu að eiga ekki fyrir mat. Velmegandi bóndi eins og ég hef heldur ekki lent í því, en ég hef orðið svo þyrstur á hlaupum eftir óþægum ”rollum” á fjöllum að mér fannst ég hafa himinn höndum tekið þegar ég fann rakt leirflag og gat gert smá holu og lapið leðjuna sem í holuna kom. Það er nefnilega þannig að fyrir þann sem illa er haldinn af þorsta þá er bjargráðið ekki að loka fyrir brunninn þó gruggugur sé, fyrst þarf að útvega nýjan með betra vatni. 

Gísli segir að það sem honum þyki alvarlegast í þessu máli sé ”sú lítilsvirðing sem skjólstæðingum Fjölskylduhjálparinnar sé sýnd” og áfram segir hann: ”það er beinlínis verið að segja því að þótt ekki væri hægt að selja vöruna venjulegu fólki þá væri þetta fullgott handa því.” Ekki er nú skilningurinn mikill og verð ég að viðurkenna að þarna tapaðist nokkuð af því áliti sem Gísli hafði áunnið sér hjá mér. Það þarf enginn að segja mér að þetta sé hugarfar sem starfsfólks Fjölskylduhjálparinnar tileinkar sér. Málið er að Fjölskylduhjálpina skortir fjármagn til kaupa á matvörum til að fullnægja þörfinni og það sem þó var nýtilegt af þessum frægu ”útrunnu” vörum var ókeypis viðbót – ef fólk vildi það sjálft – og eftir mínum upplýsingum þótti mörgum það kærkomin viðbót. Jafnvel þótt, eins og Gísli segir sjálfur, að varan geti hafa tapað næringargildi. Varla gerir það eitt vöruna hættulega.

Gísli gerir því einnig skóna að mikill sé hagnaður fyrirtækja sem eru að losa sig við urðunargjald og segir orðrétt: ”Þá má geta þess að með því að keyra útrunnum matvælum í Fjölskylduhjálpina gátu fyrirtæki sparað sér fé í urðunargjaldi sem er um 11 kr. á kílóið hjá Sorpu. Þá þarf varla að ítreka að þarna var um skýlaust lögbrot að ræða. Því spyr ég Guðbrand: Á það að viðgangast að lög séu brotin og fátækum sýnd sú lítilsvirðing sem hér segir í nafni “góðgerðarstarfsemi”.”
 
Jahá, þarna hef ég líklega skotið mig í fótinn. Svo sem ekki alveg óvanur því. Og þó, þetta er nefnilega þankagangur sem við hérna norður frá hvorki þekkjum né skiljum og ég er helst að hugsa um að halda bara áfram að trúa því að matvælin hafi verið gefin af góðum hug, laust við alla lítilsvirðingu eða ágóðavon. Tel líka mikilvægt að fréttafólk hlusti á viðmælendur sína, en framkvæmdastjóri Fjölskylduhjálparinnar tók margsinnis fram í Kastljósþætti að varan hefði verið afhent áður en sá ægilegi dagur rann upp að hún var ”útrunnin”. Þá er einnig líklegt að á talsverðum hluta umræddrar vöru hafi staðið ”best fyrir”, en ekki "síðasti söludagur”. Einnig má minna á að það er alþekkt að fyrirtæki sendi í urðun talsvert magn vöru með ærnum kostnaði til að halda uppi sölu og verði, því þú selur ekki þeim sem þú gefur.

Varðandi spurningu um lítilsvirðingu þá þarf ekki að segja mér að fólk standi í erfiðu starfi árum saman með því hugarfari að líta niður á skjólstæðingana. Lítilsvirðinguna fann fréttafólkið upp sjálft og hjálparlaust og hjá því er hún best geymd. 

Lög eru lög en stundum er gott að heilbrigð skynsemi sé höfð til hliðsjónar, þegar kemur að túlkuninni. Þetta vita allir sem þau fræði hafa skoðað.

Ég hélt raunar að umrætt ”velmegunarfólk” næði að skilja hvað ég væri að reyna að segja í fyrri grein minni, en það var einfaldlega að umfjöllun Kastljóss og umfjöllun sjónvarps í fréttatíma þar á undan snerist eingöngu og alfarið um afhendingu ”útrunninna” matvæla til nauðstaddra. Ekki var minnst einu orði á orsök vandans sem ætti þó að vera það sem fyrst væri fjallað um. Það er spurninguna: Hvers vegna er vandi þessarar tegundar hér á þessu ríka Íslandi, og í öðru lagi: Hvers vegna er starfsemi  af þeim toga sem Fjölskylduhjálp Íslands er að veita ekki séð fyrir því fjármagni sem nauðsynlegt er til að hún geti sinnt þessu umrædda og því miður bráðnauðsynlega hlutverki sínu. Er það ríkisvaldið sem er að bregðast? Eru það sveitarfélögin sem eru að bregðast? Eða eru það kannski velmegandi borgarar þessa lands, þú og ég, sem eru hættir að taka nærri sér þó náunginn í næsta kofa líði skort? 

Samhugur og umhyggja virðast úrelt hugtök á þotuöld nútímans. Af því tilefni nefndi ég forstjórann sem á einum eftirmiðdegi keypti og seldi sama hlutinn og græddi 380 milljónir á viðskiptunum og hefur þó að mér skilst 140 milljónir í bein árslaun. Bara söluhagnaðurinn dygði Fjölskylduhjálp Íslands til að hún gæti sinnt sínu hjálparstarfi með sóma og sá forstjóri sem vitnað var til er ekki sá eini sem talist gæti aflögufær.  

Kannski treystir velmegunarfólkið á RÚV sér ekki í þá umræðu.

Guðbrandur Sverrisson, bóndi á Bassastöðum