23/12/2024

Það eiga allir að hafa aðgang að góðri menntun óháð efnahag og búsetu

Aðsend grein: Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir
Aðgangur að menntun í heimabyggð er ein af meginforsendum þess að styrkja búsetu, lífskjör og atvinnulíf á landsbyggðinni. Framboð á góðri menntun í leikskólum og grunnskólum, öflugar metnaðarfullar stofnanir á framhaldsskólastigi, verkmenntun auk uppbyggingar háskólastarfs er grundvöllur framfara og þróunar.

Í skólakerfinu þarf einnig að ríkja faglegt frelsi til að starfsfólk hafi svigrúm til að vinna að blómlegu og skapandi skólastarfi. Skólakerfið á að vera lifandi samfélag skólafólks, nemendanna sjálfra og fjölskyldna þeirra. Innan þess verður að mæta þörfum nemendanna í samræmi við þarfir og þroska hvers og eins. En til þess að skólastarfið geti blómstrað þarf að ríkja sátt um verklag, kjör og aðbúnað innan skólanna. Því er nauðsynlegt að sveitarfélögunum séu tryggðir tekjustofnar til að mæta þeim kröfum sem lagalega eru gerðar til skólastarfsins.

Efling háskólanna

Landsbyggðin þarf á frumkvæði og bjartsýni á að halda og hvoru tveggja fæst með ábyrgð og sjálfstæði heimamanna. Framhaldsnám á háskólastigi felur í sér mikinn samfélagslegan ávinning. Í Norðvesturkjördæmi hefur verið gaman að fylgjast með uppbyggingu háskólanáms s.s. á Bifröst, á Hvanneyri og að Hólum þar sem frumkvæði og sveigjanleiki er styrkur skólanna. Þessum skólastofnunum þarf að skapa tækifæri á að vaxa áfram og dafna á sínum forsendum. Miklar vonir eru bundnar við að Háskólasetrið á Ísafirði verði eflt og það gert að formlegum háskóla. Einnig þarf að huga að stofnun háskólaseturs á Akranesi með séráherslu á iðnnám og njóta þar samstarfs við iðnfyrirtækin á svæðinu. Annað brýnt verkefni framundan er frekari uppbygging háskólastarfs á Sauðárkróki.

Framhaldsskólanám á sunnanverðum Vestfjörðum

Undanfarið hef ég fengið að taka þátt í því sem verkefnisstjóri ásamt kröftugu fólki fyrir vestan að koma á framhaldsskólanámi á sunnanverðum Vestfjörðum í samvinnu við Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Það sem gerir verkefni sem þetta ekki síst mögulegt er tilkoma nýrra kennsluaðferða á sviði dreifmenntunar, og fjarkennslu. Við sem höfum unnið að kynningu þessa náms á svæðinu höfum fundið fyrir miklum áhuga og bjartsýni samfara því að þetta verkefni verði að veruleika. Foreldrar sjá fyrir sér að geta stutt lengur við bakið á börnum sínum heima í héraði og barnmargar fjölskyldur þurfa ekki að flytja burt til annarra staða þar sem viðeigandi nám er í boði.

Mennt er máttur

Skólauppbyggingu og mótun hennar er aldrei lokið, sífellt þarf að leita nýrra og framsækinna leiða til að gefa fólki kost á eins góðri grunn-, framhalds-, og háskólamenntun sem völ er á. Það sama á við um endur- og símenntun. Metnaðarfullt starf allra er að skólastarfinu koma er leiðin að því markmiði. Við höfum fólk sem hefur vilja og þor og við þurfum stjórnvöld sem styðja við hugmyndir þeirra og frumkvæði.

Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir
skipar 2. sæti á lista Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi.