04/05/2024

Öfgarnar skila engu

Aðsend grein: Herdís Sæmundardóttir
Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðunni um umhverfismál á síðustu vikum. Vinstri grænir eru sjálfum sér samkvæmir í sinni blindu trú að þeir sjálfir séu einu umhverfisverndarsinnarnir í landinu. Dæmin sanna þó að sú einsleita lína sem kemur frá forystunni nær hvergi nærri til flokksmanna um landið vítt og breitt. Þannig barðist til að mynda meirihluti Vinstri grænna og Samfylkingarinnar á síðasta kjörtímabili fyrir uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík, sem oddviti VG á Akureyri styður dyggilega. Á því sama kjörtímabili setti meirihluti Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks í Skagafirði Skatastaðavirkjun inn á tillögu að aðalskipulagi sveitarfélagsins. Síðasta dæmi um tvískinnung VG er afstaða bæjarfulltrúa þeirra í Mosfellsbæ gagnvart lagningu vegar í gegn um Álafosskvosina. Verkin tala sínu máli þrátt fyrir hávaða forystunnar og sjálfumgleði.


Á sama hátt er afstaða Samfylkingarmanna til nýtingar og verndunar náttúrunnar mismunandi eftir því við hvern talað er og hvar viðkomandi er staðsettur á landinu. Sérkennnilegast hefur þó verið að fylgjast með tilraunum nokkurra sjálfstæðismanna  til að stimpla Sjálfstæðisflokkinn inn sem náttúruverndarflokk á miðju stjórnmálanna, eða svolítið til hægri við miðjuna, eins og einn varaþingmaður þeirra orðaði það. Þessi tilraun er vel studd af Morgunblaðinu sem meira að segja litaði sjálfstæðisfálkann grænan á forsíðu blaðsins fyrir nokkru. Frekar spaugilegt. En því skyldi þeim vera svona mikið í mun að koma sér fyrir á miðjunni í umhverfismálum. Það skyldi þó ekki vera að menn sjái að það er miðjan sem leitar eftir og býður upp á sátt í samfélaginu og það er afar mikilvægt að um umhverfismálin ríki sátt. Það er nefnilega svo að öfgarnar ná engu fram. Öfgarnar leita ekki eftir sjónarmiðum annarra, bjóða ekki upp á neina sátt og eru þar af leiðandi ekki vænleg leið til að ná árangri í lýðræðissamfélagi. Öfgarnar leiða ekki til framfara. Þetta vita framsóknarmenn og hafa alltaf vitað. Það er þess vegna sem Framsóknarflokkurinn hefur ætíð haft að leiðarljósi að leita sátta og það er þess vegna sem Framsóknarflokkurinn hefur verið eftirsóknarverður til samstarfs um stjórn landsins í gegn um tíðina.

Um þessar mundir er mikil vitundarvakning í samfélaginu um mikilvægi náttúruauðlinda okkar og umgengni við náttúruna. Það er vel. Og það er mikilvægt að stjórnmálaflokkarnir hlusti eftir röddum fólksins og setji sér stefnu sem tekur mið af þeim áherslum sem uppi eru gagnvart náttúruvernd og nýtingu auðlinda. Í þeim anda hefur Framsóknarflokkurinn markað sér farveg til að skilgreina hvaða auðlindir á að nýta og hverjar á að vernda, hvernig á að standa að úthlutun gæða og hvað á að greiða fyrir þau. Þannig er miðjuleið sátta enn á ný virkjuð til að setja fram stefnu sem tekur mið af sjónarmiðum þeirra sem vilja vernda náttúruna og hinna sem vilja nýta hana í þágu atvinnuuppbyggingar. Það er jafnframt sú leið sem ég trúi að flestir Íslendingar vilji fara og þess vegna er mikilvægt að Framsóknarflokkurinn sé við stjórnvölinn.
 
Herdís Á. Sæmundardóttir
Skipar 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi.