28/04/2024

Kjarneðlisfræðing vantar á Kópasker

Aðsend grein: Anna Kristín Gunnarsdóttir
Það er merkilegt hvað stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, hafa gjörsamlega gefist upp á að dreifa opinberum störfum réttlátlega um landið. Samkvæmt svörum við fyrirspurn á Alþingi nýlega eru 15.000 opinber störf í Reykjavík en 3.500 á landsbyggðinni allri. Þetta er óheyrilegt óréttlæti. Landsbyggðin á að sjálfsögðu rétt á hlutdeild í þeirri atvinnu sem greidd er af sameiginlegu skattfé landsmanna. 

Landspítalann á landsbyggðina?

Ég er þá ekki að tala um að Landspítalinn verði fluttur út á land, eins og Árni Johnsen, verðandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, stakk uppá á Rás 2 í dag, heldur er ég að tala um hluta af þeim 3-400 opinberum störfum sem talið er að séu laus til umsóknar á ári hverju og vinna má hvar sem er, að ákveðnum grundvallar forsendum uppfylltum. Forsendum eins og öruggu og öflugu netsambandi og góðum samgöngum. Og eiga ekki landsmenn allir einmitt fullan rétt til þessarra þátta? Vissulega, þó þeir séu því miður á meðal þess sem ríkisstjórnin hefur vanrækt í sinni 16 ára stjórnartíð, svo heil landsvæði, t.d. Vestfirðir og norðausturhorn landsins, þurfa enn að aka eftir malarvegum og einbreiðu, handónýtu slitlagi svo tugum og jafnvel hundruðum kílómetra skipti.

Burt í skjóli myrkurs

Störfin eru flutt burt af landsbyggðinni, eitt og eitt, þegjandi og hljóðalaust. Launa- og tekjubókhald heilbriðgðisstofnana og fleiri störf innan heilbrigðisgeirans, störf hjá lögreglunni, Ratsjárstofnun …  allt flutt burt.

Stjórnarflokkarnir gera sér ekki grein fyrir, eða kæra sig kollótta um, að ungt skólagengið fólk vill gjarnan búa á landsbyggðinni – snúa aftur til heimahaganna. Látið er í veðri vaka að jafn erfitt sé að fá hæft fólk til starfa á landsbyggðinni og ef verið væri að auglýsa eftir kjarneðlisfræðingi eða öðrum með jafn sjaldgæfa menntun. 
En staðreyndin er að 60 manns sóttu um síðast þegar auglýst var staða sérfræðings hjá Byggðastofnun á Sauðárkróki, rúmlega 4 sóttu um hverja eina stöðu þegar opinber störf voru auglýst á Skagaströnd, Blönduósi og Hvammstanga í vetur og menntunarstig umsækjenda var hærra en sóst var eftir. Það er staðreynd málsins.

Ráð fyrir hendi

Samfylkingin lagði fram í byrjun síðasta þings og fékk samþykkta í þinglok, tilögu um "störf án staðsetningar". Tillagan gerir ráð fyrir að skilgreind verði öll störf á vegum ríkisins sem unnt er að vinna óháð staðsetningu í því skyni að:
    –      jafna aðstöðu fólks til að sækja um og sinna margvíslegum störfum á vegum hins opinbera,
    –      auka möguleika fólks af landsbyggðinni til að gegna störfum á vegum ríkisins með því að gera hæfu fólki mögulegt að búa víðar en í sveitarfélagi viðkomandi stofnunar,
    –      stækka hóp hæfra umsækjanda um störf á vegum ríkisins,
    –      auka skilvirkni og draga úr kostnaði í opinberum rekstri.

Taka á sérstaklega fram í auglýsingum frá ríkinu þegar störf án staðsetningar eru laus til umsóknar. 

Með þessu móti er hægt að leiðrétta hið mikla misvægi sem er á milli landsbyggðar og höfuðborgar, hvað varðar fjölda opinberra starfa.  Það er eitt af mörgum réttlætismálum sem Samfylkingin mun koma í höfn á næsta kjörtímabili, fái hún nægilegan stuðning í komandi kosningum.

Anna Kristín Gunnarsdóttir
þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi