10/09/2024

Erindi kvenna í stjórnmálum – af gefnu tilefni

Aðsend grein: Ólína Þorvarðardóttir
Ýmsar mætar konur eru á framboðslistum stjórnmálaflokkanna í Norðvesturkjördæmi fyrir þessa kosningar, eins og bent hefur verið á m.a. af Gústafi Gústafssyni sem sent hefur mér tilskrif. Tilefnið er að fyrir skömmu skrifaði ég grein þar sem ég vakti athygli á tveimur konum úr einu og sama héraðinu, Önnu Kristínu Gunnarsdóttur alþingismanni og Herdísi Á. Sæmundsdóttur stjórnarformanni í Byggðastofnun. Báðar keppa þær um hylli Skagfirðinga um þessar mundir – sem og auðvitað kjósenda víðar í kjördæminu.  Lesendur geta kynnt sér þessi skrif á bloggsíðu minni www.olinathorv.blog.is.

Hugleiðingar mínar komu illa við Gústaf og þá væntanlega aðra stuðningsmenn Vinstri grænna sem státa af frambærilegum konum í Norðvesturkjördæmi fyrir þessar kosningar. Síst vil ég gera lítið úr kvennavali Vinstri grænna eða annarra flokka. Hins vegar árétta ég að erindi mitt inn á ritvöllinn var ekki það að gera heildarúttekt á kvenframbjóðendum allra stjórnmálaflokka í kjördæminu, heldur einungis að benda á þá staðreynd að Skagafjörður býður fram tvær konur sem telja mætti í baráttusætum að þessu sinni.
Herdís Á. Sæmundsdóttir tekur skrif mín einnig óstinnt upp. Hún virðist álíta að með þeim sé ég að “senda tóninn” henni persónulega, eins og hún orðar það í pistli sem hún hefur birt. Ég er ekki sammála því að skrifum mínum sé beint gegn Herdísi sem persónu – fjarri því – enda hef ég ekkert sagt sem talist getur henni sjálfri til vansa. Þvert á móti er hún í grein minni sögð “mæt” kona og “frambærileg” ekkert síður en Anna Kristín Gunnarsdóttir sem ég þó styð fram yfir Herdísi af ástæðum sem raktar eru í greininni. Þær ástæður lúta að stjórnmálaskoðunum og afstöðu minni  til þeirra sjónarmiða sem þessar tvær konur eru fulltrúar fyrir.

Viðbrögð Herdísar benda til þess að hún geri ekki glöggan greinarmun á mönnum og málefnum – og taki til sín persónulega þá gagnrýni sem beinist að framsóknarflokknum og stjórnarathöfnum hans. Sjálf gerist hún full persónuleg í garð annarra í svari sínu, og heggur þar ómaklega að Önnu Kristínu Gunnarsdóttur.
Það virðist hafa komið fólki á óvart að “kvenréttindakonan” og “jafnréttissinninn”, eins og ég er kölluð í greinum þeirra Gústafs og Herdísar, skuli hafa tekið upp penna til þess að ræða um erindi tveggja kvenna í stjórnmálum. Ætlar þetta ágæta fólk að halda því fram að kvenréttindi felist í því að konur séu undanþegnar stjórnmálaumræðu? Ætlast þau til þess að “jafnréttissinnar” taki ekki afstöðu til kvenna í stjórnmálum? Ef svo væri, þá værum við að tala um það að velja konur “bara vegna þess að þær eru konur” – og undir það get ég aldrei tekið.

Konur sem telja sig eiga erindi í stjórnmál verða auðvitað að vera tilbúnar í rökræðu um málstað sinn, tilbúnar að takast á um þann málstað og sæta gagnrýni ef því er að skipta. Við konur eigum það ekki skilið að vera metnar á forsendum kynferðisins eingöngu – hvorki af körlum né öðrum konum.

Ólína Þorvarðardóttir – kjósandi í Norðvesturkjördæmi