10/09/2024

Af ábyrgð (arleysi) netmiðla

Aðsend grein: Matthías Lýðsson æðarbóndi
Fyrir skömmu birtist frétt á mbl.is um að arnarvarp hefði ekki gengið sem skyldi í vor. Náttúrufræðistofnun, væntanlega talsmaður hennar, sagði að meiri brögð hefðu verið að truflun á varpstöðvum af mannavöldum, eins og lesa má í fréttinni. Nú er það svo að lesarar mbl.is geta bloggað um þær fréttir sem þar birtast. Ef það er rétt skilið telur mbl.is sig enga ábyrgð bera á þeim skoðunum sem þar eru settar fram. Þær séu alfarið á ábyrgð bloggaranna. Þegar ég las bloggskrifin um arnarvarpsfréttina skaut upp í hugann gömlu máltæki: “Til heimskunnar þarf ekki að sá. Hún vex af sjálfu sér.” Arnarvarpsófarir myndu vera æðarbændum að kenna og voru skrif bloggara tilfinningaþrungin. Lítum nú á þrjú dæmi sem mbl.is birtir að sjálfsögðu án ábyrgðar:

“Hvernig væri að taka sig til og fara að skjóta æðarbændur, brenna híbýli þeirra og lendur. Við hljótum að vera í jafn miklum rétti, ef ekki meiri til að skjóta og þess háttar þar sem þeir eru ekki friðaðir eins og ernirnir. Í alvöru talað, þetta fer ekkert smá í taugarna á mér. Þessir æðarbændur halda það hreinlega að þeim sé allt heimilt. Það koma varla margir til greina sem skjóta erni sér til gamans eða eyðileggja varpstöðvar hans.Nú er ég reiður, bráðum verð ég brjálaður.”  Þetta skrifar Hilmar Ingi Ólafsson Reyð- og Borgfirðingur eystri.

“Nú er ég mikið fyrir fugla af öllum stærðum og gerðum og finnst fáránlegt að stakir bóndadurgar séu að taka það upp með sjálfum sér að stöðva arnarvarp með grjótburði og fuglahræðum, sem er að sjálfsögðu bannað með lögum.Það er spurning hvort við eigum að taka upp Afríkuaðferðina, skjóta bara íslensku veiðiþjófana!”  Þetta skrifar Anna Karen Sigurðardóttir.  Hún mun vera bæði ljóshærð og bláeyg.

“Hvað er gert við veiðiþjófa í Afríku?  Þeir sleppa allavega ekki með klapp á bakið… (Höfundur er ákafur dýraverndarsinni og andstæðingur fáfróðra molbúa)” Þetta skrifar Örn Arnarsson kennari við Heiðarskóla og formaður Kennarasamtaka Vesturlands.

Nú er það svo með æðarbændur að þeir eru sem betur fer ekki aldurs eða kyngreinanlegir, þannig að þeir geta verið á öllum aldri, karlar, konur eða börn. Hýbýli þeirra eru heldur ekki sérmerkt. Betri leið væri að vakta þau svæði þar sem æðarfugl þéttir sig er líða fer á maímánuð. Þannig væri hægt að skjóta a.m.k. nokkra æðarbændur. Þó verður að gæta þess vel að styggja ekki erni sem hugsanlega gætu verið á svæðinu. Nú finnist ekki neinir æðarbændur eða þeir utan skotmáls gæti verið hentugt að snúa sér að annari stétt, sem er eins og æðarbændur, stundum að ósekju óvinsæl, það er flutningabílstjórum. Þá er miklu auðveldara að þekkja, það eru þeir sem aka flutningabílum.

Hér verður ekki borið í bætifláka fyrir þá sem spilla arnarsetrum og brjóta lög og reglur um vernd og friðun villtra dýra. Þá umræðu og hvernig megi úr bæta er ég tilbúinn að taka hvenær sem er. Ég er sannfærður um að hægt er að bæta úr með viðræðum, skilningi og samkomulagi. En þegar fólk er tilbúið að “leysa” vandamál, með því að myrða samborgara sína get ég ekki orða bundist. Það þarf vart að taka það fram hótanir um morð og eignaspjöll varða við Hegningarlög og eru refsivert athæfi. Reyndar finnst mér að lögreglan hljóti að vilja ræða málin við Hilmar Inga Ólafsson.

Allir bloggritarnir sem til er vitnað hér stigu út fyrir mörk hins siðlega og vitræna og duttu. Hverskonar boðskapur og skilaboð eru það til samferðamanna og barna að viðfangsefni daglegs lífs megi leysa með manndrápum? Ég vorkenni aðstandendum þessara bloggara ekki neitt. Vil þó benda þeim á, að okkar ágæta geðheilbrigðiskerfi á vonandi ráð við vitglöpum af þessu tagi. En við gerum öll okkar mistök og dettum í lífinu.  Það sem skiptir máli er hvernig við rísum upp aftur, viðurkennum mistökin og lærum af þeim.

Það er til arabískt máltæki eitthvað á þessa leið: “Sá sem ekki lokar dyrunum býður nöðrunum inn.” Þegar vefurinn mbl.is gefur vefriturum kost á að tjá skoðanir sínar á fréttum margfaldar það möguleikana á því að bloggin séu lesin. Mér er ómöglegt að skilja að það eigi að gilda einhverjar aðrar reglur um ábyrgð ritstjórnar, eftir því hvort orðin eru á rafrænu formi eða á blaði. Í dæminu hér að framan réttlætir bloggari dráp á tilteknum hópi fólks og eyðileggingu eigna þess. Það má því miður hugsa sér enn ljótari dæmi sem óvandaðir geta nýtt mbl.is til.

Frelsinu til að tjá sig fylgja ábyrgð og skyldur. Það munu því miður alltaf verða einhverjir sem rísa ekki undir þeirri ábyrgð. Og hver er þá ábyrgð þess sem dreifir óhróðri, mannorðsmeiðingum og manndrápshótunum? Mun mbl.is ala nöðrur í húsi sínu?

Matthías Sævar Lýðsson æðarbóndi
Húsavík, Strandabyggð.