22/12/2024

Teistuvarp á Ströndum í hættu

Í nýjasta hefti Náttúrufræðingsins er grein eftir fuglafræðingana Jón Hall Jóhannsson og Björk Guðjónsdóttir um teistuvarp á Ströndum. Er þetta seinni greinin af tveimur sem birst hafa um rannsóknir þeirra á teistuvarpinu og fjallar þessi grein um áhrif minks á teistuvarpið síðustu 10 ár. Fram kemur að teistan geti verið viðkvæmari en ýmsar aðrar fuglategundir fyrir afráni minks og hann getur og hefur valdið miklum skaða í teistuvarpi, jafnvel þannig að engir ungar hafi komist upp sum árin í einstökum vörpum. Niðurstaða Jóns Halls og Bjarkar er að grípa þurfi til sérstakra aðgerða til að koma í veg fyrir að teistuvarp á Ströndum líði undir lok.

Um 1955 var teistuvarp þekkt á tæplega 40 stöðum á Ströndum, sunnan Ingólfsfjarðar og að Kjörseyri í Hrútafirði. Nú eru þau aðeins fá vörp eftir sem eitthvað kveður að og öll á svæðinu frá Skeljavík sunnan við Hólmavík og að Ennishöfða milli Bitru og Kollafjarðar. Svo virðist sem nálægð við mannabústaði og umferð veiti teistunni vernd, en kannski er ástæðan sú að þar verður frekar vart við mink og tilkynnt um hann.

Til athugunar í rannsókn Jóns Halls og Bjarkar voru 6 vörp, í Skeljavík og Húsavík, á Kirkjubóli, Heydalsá, Kollafjarðarnesi og Broddanesi. Teistustofninn á Ströndum er á bilinu 135-195 pör og af þessum stöðum hefur orðið fækkun síðustu árin í Kollafjarðarnesi og Broddanesi þar sem afrán minks er mest, teistuvarpið í Húsavík, Skeljavík og á Heydalsá standa nokkurn veginn í stað og fjölgun hefur orðið á Kirkjubóli. Misjafnt er hvenær minkurinn leggur til atlögu við varpið, hvort það er á eggjatíma eða ungatíma og áhrifin af því einnig misjöfn. Einnig kemur fyrir að umferð minks að vori truflar álegu eða kemur í veg fyrir varp og dæmi eru um að minkur drepi fullorðnar teistur í hreiðri.

Niðurstaða Jóns Halls og Bjarkar er að framtíð þeirra teistuvarpa sem eftir eru á Ströndum sé ótrygg og markvissar aðgerðir þurfi ef koma eigi í veg fyrir að þau líði undir lok. Lokaorð greinarinnar eru eftirfarandi: "Sem verndaraðgerðir mætti hugsa sér öfluga minkaleit sem miðaði sérstaklega að því að vernda teistubyggðirnar og samhliða þyrfti að friða teistu fyrir skotveiðum, svo tvennt það mikilvægasta sé nefnt. Að öðrum kosti er líklegt að teista hverfi að mestu eða öllu leyti sem varpfugl á Ströndum áður en langt um líður."

Heimild: Jón Hallur Jóhannsson og Björk Guðjónsdóttir: "Áhrif minks á teistuvarp á Ströndum." Náttúrufræðingurinn. Tímarit hins íslenska náttúrufræðifélags 76. árg. (1.-2. hefti 2007), s. 29-36.

Teistur

natturumyndir/580-teistur4.jpg

Teistur á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð, þar er nú eitt stærsta teistuvarp á Ströndum og það eina sem hefur stækkað síðustu ár – ljósm. Jón Jónsson