04/05/2024

Táningur í tölvunni hjá Leikfélagi Hólmavíkur

Eftir að hafa skoðað og samlesið nokkur leikrit á síðustu vikum hefur stjórn Leikfélags Hólmavíkur ákveðið að setja upp farsann Með táning í tölvunni eftir Ray Cooney. Höfundurinn er sá sami og að síðasta farsa sem félagið setti upp en sá bar titilinn Viltu finna milljón? Leikstjórinn er einnig sá sami, því samið hefur verið við Arnar Snæberg Jónsson tómstundafulltrúa um að leikstýra uppsetningunni. Boðað hefur verið til samlesturs í félagsheimilinu á Hólmavík á mánudaginn kemur, en það verður í höndum leikstjórans að velja leikara úr hópi þeirra sem hafa áhuga á að vera með.

Stjórn Leikfélags Hólmavíkur vill líka hvetja þá sem hafa áhuga á að starfa á bak við tjöldin til að mæta á samlestra og æfingar þar sem markvisst verður farið í hópefli og skemmtilega og hressandi leiki!