08/10/2024

Sviftingar í nýrri Gallupkönnun

Miðað við nýja skoðanakönnun Gallup í Norðvesturkjördæmi eru nokkrar sviftingar á fylgi flokkanna. Sjálfstæðisflokkurinn er með mest fylgi eða 33,2% en Samfylking er með 20,5% og er því orðin stærri en Vinstri grænir sem eru með 18,4% fylgi samkvæmt könnuninni. Framsókn er þar fast á eftir með 18,3%, Frjálslyndir með 8% og Íslandshreyfingin 1,1%. Það eru því Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Samfylking sem sækja á frá síðustu könnun, en Vinstri grænir sækja mest á sé miðað við síðustu kosningar. Þingmannalistinn eins og hann liti út ef þetta yrðu úrslitin fylgir hér að neðan.

Í kjördæminu eru 8 kjördæmakjörnir þingmenn og 1 uppbótarmaður. Ekki er víst hver næði í níunda þingsætið sem stendur til boða, uppbótar- eða jöfnunarsætið sem byggir að hluta til á atkvæðum sem falla dauð í öðrum kjördæmum. Samkvæmt útreikningum strandir.is yrði röð þingmannanna eftirfarandi ef þetta yrði niðurstaða kosninganna:

1. Sturla Böðvarsson – 1. maður hjá Sjálfstæðisflokki
2. Guðbjartur Hannesson – 1. maður hjá Samfylkingu
3. Jón Bjarnason – 1. maður hjá Vinstri grænum
4. Magnús Stefánsson – 1. maður hjá Framsókn
5. Einar K. Guðfinnsson – 2. maður hjá Sjálfstæðisflokki
6. Einar Oddur Kristjánsson – 3. maður hjá Sjálfstæðisflokki
7. Karl V. Matthíasson – 2. maður hjá Samfylkingu
8. Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir – 2. maður hjá Vinstri grænum

_________________________________________________

9. Herdís Sæmundardóttir – 2. maður hjá Framsókn
10. Herdís Þórðarsdóttir – 4. maður hjá Sjálfstæðisflokki
11. Guðjón A. Kristjánsson – 1. maður hjá Frjálslyndum
12. Anna Kristín Gunnarsdóttir – 3. maður hjá Samfylkingu

Könnunin hjá Gallup var gerð dagana 22.-26. apríl. Úrtakið var tilviljunarúrtak úr þjóðskrá og í því voru 800 manns. Nettósvarhlutfall var 64,5%.