03/05/2024

Sundleikfimi á Drangsnesi

Sundleikfimi er nýjung á Drangsnesi. Unnur Sædís Jónsdóttir frá Bæ er sjúkraþjálfaranemi frá HÍ og hefur undanfarna daga verið með stífar æfingar fyrir þorpsbúa svo þeir geti án samviskubits borðað jólakræsingarnar. Mæting hefur verið mjög góð þar sem hátt í 20% íbúa mættu þegar mest var. Létu þeir ekki suðvestan hvassviðri á sig fá, enda verður að nýta það þegar einhver kemur og býður upp á svona þjónustu. Íbúar stefna á að halda þessu áfram sjálfir enda höfðu allir gagn og gaman af. Þorranefndin í Kaldrananeshreppi hefur fylgst vel með þessum tilburðum og líklegt þykir að einhverjir smelli sér í sundbol og leiki þetta eftir á þorrablótinu sem verður 4. febrúar.

Sundleikfimi á Drangsnesi – ljósm. Alla Óskars.