22/12/2024

Styrkir úr Pokasjóði

Nokkur verkefni á Ströndum og tengd svæðinu fengu styrki úr Pokasjóði við úthlutun á fimmtudaginn var. Þannig fékk Menningarmálanefnd Strandabyggðar 500 þúsund til að setja upp sögu- og fróðleiksskilti innanbæjar á Hólmavík, Sauðfjársetur á Ströndum fékk 300 þúsund til að setja upp upplýsinga- og fræðsluskilti við Sævang og Sögusmiðjan á Kirkjubóli fékk 300 þúsund í fyrri hluta þess verkefnis að breyta Vestfjarðavefnum á www.vestfirdir.is úr upplýsingavef um ferðaþjónustu í myndskreytt alfræðirit á vefnum um náttúruperlur og sögustaði á Vestfjörðum. Loks fékk Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum 500 þúsund til að bæta aðkomu að safninu á 40 ára afmæli þess.

Þetta var í tólfta sinn sem úthlutað er úr Pokasjóði og hefur sjóðurinn lagt rúmlega 700 milljónir króna til ýmissa verkefna á sviði mannúðarmála og forvarna, skógræktar og landgræðslu, menningarstarfs, útivistar og íþrótta- og æskulýðsstarfs. Að sjóðnum standa 160 verslanir víða um land og fær Pokasjóður tekjur af sölu plastpoka til að bera heim vörur í þessum verslunum. Alls sóttu 900 aðilar um styrki úr Pokasjóði þetta árið ár og upphæðin sem sótt var um var samtals 900 milljónir.

Arnar og Höskuldur

Arnar S. Jónsson formaður Menningarmálanefndar Strandabyggðar og framkvæmdastjóri Sauðfjárseturs á Ströndum tók við tveimur styrkjum til verkefna. Það var Höskuldur Jónsson sem afhenti.

Fleiri verkefni á Vestfjörðum fengu styrki, hér er afhentur styrkur að upphæð 500 þúsund til Raggagarðs á Súðavík. Þar er áhugavert verkefni í gangi þar sem verið er að byggja upp fjölskyldugarð með leiktækjum fyrir heimamenn og gesti. Af öðrum styrkjum til Vestfjarða má nefna að Félag eldri borgara á Flateyri fékk 1,5 milljón til umhverfisbóta við hús félagsins, tónlistarhátíðin Við Djúpið fékk 500 þúsund og fjöllistaveislan Hafstraumar á Patreksfirði fékk 100 þúsund.

atburdir/2007/580-pokasjodur2.jpg

Jón Jónsson framkvæmdastjóri Sögusmiðjunnar tók við styrknum til Vestfjarðavefjarins úr hendi Sturlu Eðvardssonar frá Suðureyri sem er Strandamönnum að góðu kunnur, en hann var verslunarstjóri KSH á Hólmavík um tíma.

atburdir/2007/580-pokasjodur4.jpg

Ingibjörg Gestsdóttir þjóðfræðingur og nýráðinn forstöðumaður Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum í Hrútafirði tók við styrknum fyrir safnið og kemur hann vafalítið að góðum notum á afmælisárinu.

– ljósm. Jón Jónsson og Arnar S. Jónsson.