16/10/2024

Styrkir til umhverfismála

Ferðamálaráð Íslands hefur auglýst eftir umsóknum um styrki til úrbóta í umhverfismálum fyrir árið 2005. Úthlutað verður um 40 milljónum króna og skiptist upphæðin í þrjá meginflokka. Verkefnið er liður í markvissri uppbyggingu ferðaþjónustu og fyrirbyggjandi aðgerðum til verndunar á íslenskri náttúru. Verkefni á Ströndum hafa oft fengið minniháttar styrki úr þessum sjóði og rétt er að minna framtakssama á að það eru aðeins þeir sem róa til fiskjar sem fá. Umsóknareyðublöð má nálgast hér.

Við úthlutun er tekið mið af ástandi og álagi á einstökum svæðum og mikilvægi aðgerðanna með tilliti til náttúruverndar. Ekki er sérstaklega litið til dreifingar verkefna eftir landshlutum. Umsóknarfrestur er til 17. janúar 2005. Skiptist styrkupphæðin á þrjá meginflokka:

1. Til minni verkefna: Úthlutað verður til minni verkefna í umhverfismálum þar sem áhersla verður lögð á uppbyggingu gönguleiða. Eingöngu verða veittir styrkir til efniskaupa. Hámarksupphæð hvers styrks verður 500 þúsund krónur.

2. Til stærri verkefna á fjölsóttum ferðamannastöðum: Veittir verða styrkir til stærri verkefna þar sem umsækjendur stýra framkvæmdum og svæðin verða í umsjón eða eigu styrkþega eftir að framkvæmdum lýkur. Þegar til úthlutunar kemur verður stuðst við eftirfarandi vinnureglur:

  • a) Um verði að ræða svæði eða staði sem verulegur fjöldi ferðamanna sækir heim.
  • b) Styrkupphæð getur aldrei orðið hærri en sem nemur 75% af framkvæmdakostnaði.
  • c) Einungis verða styrkt svæði þar sem fullnaðarhönnun liggur fyrir.
  • d) Ferðamálaráð áskilur sér rétt til að fara yfir hönnun á viðkomandi svæði ásamt þeim forsendum sem þar liggja að baki.
  • e) Styrkþegi er ábyrgur fyrir eðlilegu viðhaldi svæðis og mannvirkja er tengjast viðkomandi framkvæmdum.
  • f) Standi styrkþegi ekki við ákvæði (e) getur ekki orðið af frekari styrkveitingum til viðkomandi fyrr en að því ákvæði uppfylltu.
  • g) Engu fé verður veitt til styrkþega fyrr en að gerðum skriflegum samningi milli Ferðamálaráðs og styrkþega.
3. Til uppbyggingar á nýjum svæðum: Veittir verða styrkir til uppbyggingar á nýjum svæðum sem skipulögð hafa verið þannig að ferðamönnum nýtist viðkomandi svæði. Þegar til úthlutunar kemur verður stuðst við eftirfarandi vinnureglur:

  • a) Styrkupphæð getur aldrei orðið hærri en sem nemur 75% af framkvæmdakostnaði.
  • b) Einungis verða styrkt svæði þar sem samþykkt deiliskipulag liggur fyrir.
  • c) Hluti af styrkupphæð Ferðamálaráðs getur farið til verkhönnunar á viðkomandi svæði, þó aldrei meira en sem nemur 25% af styrkupphæð.
  • d) Ferðamálaráð áskilur sér rétt til að fara yfir hönnun á viðkomandi svæði ásamt þeim forsendum sem þar liggja að baki.
  • e) Styrkþegi er ábyrgur fyrir eðlilegu viðhaldi svæðis og mannvirkja er tengjast viðkomandi framkvæmdum.
  • f) Standi styrkþegi ekki við ákvæði (e) getur ekki orðið af frekari styrkveitingum til viðkomandi fyrr en að því ákvæði uppfylltu.
  • g) Engu fé verður veitt til styrkþega fyrr en að gerðum skriflegum samningi milli Ferðamálaráðs og styrkþega.
Nánari upplýsingar má fá á vef Ferðamálaráðs www.ferdamalarad.is.