19/09/2024

Styrkir til atvinnumála kvenna

Fram kemur á vefnum landbúnaður.is að eins og undanfarin ár leggur Félagsmálaráðaneytið fram fjármuni sem sérstaklega eru ætlaðir konum og fyrirtækjum þeirra. strandir.saudfjarsetur.is hvetja konur á Ströndum sem eru í atvinnurekstri  og eða eru með nýjar hugmyndir að láta á það reyna hvort ekki er hægt að fá styrki. Árið 2005 er fjárveiting styrkja til atvinnumála kvenna kr 25 milljónir. Umsóknarfrestur er til 28. mars 2005.

Mat umsókna
Umsóknir eru metnar af ráðgjafahópi félagsmálaráðherra. Matið byggist eingöngu á þeim gögnum sem umsækjandi leggur fram og er þá miðað við m.a.:
-Er verkefnið kvennaverkefni, í a.m.k. 50% eigu kvenna og stýrt af konum?
-Felur verkefnið í sér nýjung sem getur verið atvinnuskapandi?
-Eru markmið og verkáætlun skýr?
-Eru markaðsáætlanir skýrar og raunhæfar?
-Eru kostnaðar- og tekjuáætlanir trúverðugar?
-Er verkefnið arðbært?
-Hversu mikilvægur er styrkurinn til framgangs verkefnisins?

Veittir eru stofnstyrkir til tækja- og vélakaupa, þróunar og markaðssetningar.

Ekki eru veittir styrkir til verkefna þar sem styrkveiting gæti skekkt samkeppnisstöðu gagnvart aðila í hliðstæðum atvinnurekstri svæðisbundið.

Lögð er áhersla á nýsköpun og hún skilgreind út frá samkeppnisforsendum.

Vinnumálastofnun sér um útborgun styrkja og hefur eftirlit með ráðstöfun þeirra.
Eingöngu verður tekið við umsóknum á rafrænu formi. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar vinnumalastofnun.is

Upplýsingar veitir Margrét Kr. Gunnarsdóttir, Vinnumálastofnun, sími 515 4800. Atvinnu- og iðnráðgjafar atvinnuþróunarfélaga á landsbyggðinni veita ráðgjöf og upplýsinga við gerð umsókna. Einnig er bent á þjónustu Impru, nýsköpunarmiðstöðvar á sviði handleiðslu til frumkvöðla og fyrirtækja. Sjá nánar á heimasíðu Impru impra.is
Umsóknarfrestur er til 28. mars 2005.

Öllum umsóknum verður svarað skriflega. Mat umsókna getur tekið allt að 2 mánuði. Sé umbeðnum gögnum ekki skilað fyrir auglýstan umsóknarfrest og umsókn er ófullnægjandi, ákskilur Vinnumálastofnun og ráðgjafahópurinn sér rétt til að hafna umsóknum á þeim forsendum.