20/04/2024

Ekkifrétt af Café Riis

Engin tíðindi hafa borist af því að einhver aðili hyggist reka Café Riis í sumar en eingöngu mánuður er í að hefðbundið ferðamannatímabil hefjist á Ströndum norður. Ferðaþjónustuaðilar á Hólmavík og nágrenni eru farnir að huga að því að búa sig undir skandala aldarinnar og reyna að finna fyrirfram skýringar og svör til hungraðra, þyrstra og að öllum líkindum frávita ferðamanna sem eiga eftir að leggja leið sína til Hómavíkur í sumar.


Einn viðmælanda strandir.saudfjarsetur.is sem verður iðulega á vegi tíðindamanns fréttavefjarins, segir ástandið afar kvíðavænlegt og draup höfði meðan hann gekk framhjá Café Riis og gekk hokinn í átt að húsnæði Galdrasýningarinnar. "Hvar eru þeir núna sem hafa haft hæst yfir meintum stórgróða fyrri eiganda á rekstrinum?" spurði hann svo argur og fúll um leið og hann skellti hurð sýningarinnar aftur og tautaði svo í gegnum rúðuna: "Það skyldi þó aldrei vera að við höfum kveðið þá niður í vetur, fyrir einhvern misskilning."