19/04/2024

Tólf fyrirtæki tóku þátt í HH2

Öðru HH2 – frá hugmynd til markaðar verkefninu lauk nýverið á Vestfjörðum. Námskeiðið er sjálfstætt framhald hins árangursríka og vinsæla verkefnis Hagvöxtur á heimaslóð (HH) sem fór fram fyrir tveimur árum. Markmið HH2 verkefnisins er að auka markaðsvitund þátttakenda með kennslu vinnubragða í markaðssetningu og frágangi vöru á markað. Helstu einkenni og söluvörur svæðisins eru greindar og unnið að þróun hugmynda og vara sem verða til við samstarf ferðaþjónustufyrirtækjanna á svæðinu. Fyrsti vinnufundur hópsins fór fram á Ísafirði í byrjun apríl og sá seinni fór fram á Hólmavík og Hótel Djúpavík.

Þátttakendur kynntu þar vöruhugmyndir fyrir aðilum frá Útflutningsráði, Ferðamálastofu og Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða. Ljóst er að um margar og áhugaverðar hugmyndir er að ræða sem munu fara í framkvæmd á næstunni. Þátttakendur í verkefninu á Vestfjörðum voru frá 12 fyrirtækjum en þau eru: Strandagaldur, Grásleppusetur – Sundhani, Heydalur, Hótel Djúpavík, Hótel Ísafjörður, Malargull á Drangsnesi, Markaðsstofa Vestfjarða, Sandafell, Vesturferðir, Vestursigling ehf., Víkingar á Vestfjörðum og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða.