23/12/2024

Strandamaður ber kennsl á skrímslið Gita

Í það minnsta einn Strandamaður er staddur í Aþenu að fylgjast með Júróvisjon keppninni en það er Gunnhildur Gunnarsdóttir sem er blaðamaður hjá Fréttablaðinu. Hún heldur því fram í grein sem hún skrifar í Fréttablaðið í dag að hún hafi hitt Gita úr finnsku skrímslahljómsveitinni Lordi sem vekur álíka mikla athygli í Grikklandi og Silvía Nótt. Það sem vekur þó mesta athygli af fundi þeirra Gunnhildar og Gita í partýinu þar sem hún bar kennsl á hann, er að hann var ekki í gerfinu og lagði á flótta þegar hann varð þess var að Gunnhildur virtist þekkja hann, en hún hafði tekið viðtal við sveitina nokkru áður.

Meðlimir finnsku sveitarinnar eru algerlega óþekktir utan búninganna um heim allan og líka í Finnlandi. Gunnhildur var ekki með myndavél á sér í þessu partýi og tókst því ekki að smella mynd af Gita, sem að hennar sögn er ljóshærður piltur, frekar lágvaxinn, með lokk í neðri vör og með svartar línur undir flóttalegum augunum.

Þar sannast hið fornkveðna að það gabbar enginn Strandamann.