22/12/2024

Strandabyggð vill taka á móti flóttafólki

580-holm11Á síðasta fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar var rætt um móttöku flóttafólks, en tvö bréf höfðu borist sveitarstjórn um málefnið, frá Velferðarráðuneytinu og Andreu Vigfúsdóttur á Bræðrabrekku varðandi mögulega móttöku flóttamanna. Niðurstaða umræðunnar var sú að sveitarstjórn Strandabyggðar lýsir yfir áhuga á að standa að móttöku flóttafólks í sveitarfélaginu. Samþykkt var að veita sveitarstjóra umboð til að hefja viðræður við Velferðaráðuneytið varðandi móttöku flóttafólks í Strandabyggð og Andreu þakkað fyrir innsent erindi. Í fréttum síðustu daga hefur komið fram að 25 sveitarfélög á landinu hafi boðist til að aðstoða flóttafólk í neyð sinni og Strandabyggð hefur nú bæst í þann hóp.