30/03/2023

Ljósleiðari á Drangsnes á næsta ári

Ljósleiðari

Nú er unnið að lagningu ljósleiðara frá Hrútafjarðarbotni til Hólmavíkur og er um að ræða fyrri hluta framkvæmdar við hringtengingu ljósleiðara um Vestfirði. Vonast er til að verkefninu ljúki fyrir áramót og Hólmavík verði þá tengd ljósleiðarakerfinu. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 kemur fram að á næsta ári verður sett fjármagn í að ljúka hringtengingunni með lagningu ljósleiðara frá Nauteyri við Djúp að Súðavík, en það verk hefur ekki verið boðið út enn. Þá er einnig ætlunin að tengja fjóra aðra þéttbýlisstaði á landinu við ljósleiðarakerfið á næsta ári sem ekki hafa notið þeirrar sjálfsögðu grunnþjónustu til þessa; Drangsnes, Rif, Kópasker og Raufarhöfn.

Það var Míla ehf sem tók að sér verkefnið um lagningu strengsins um Strandir og hófust framkvæmdir í lok júlí síðastliðnum. Míla bauð síðan verkið út og var samið við Austfirska verktaka sem voru með besta tilboðið. Orkubú Vestfjarða er samstarfsaðili Mílu í verkefninu og er jafnframt lagður þriggja fasa háspennustrengur megnið af leiðinni eða frá Borðeyri við Hrútafjörð að Þorpum í Steingrímsfirði. Kemur hann í stað einfasa loftlínu, auk þess sem nú fyrst verður rafmagnið tengt saman yfir Stikuháls. Til þessa hefur verið ein raflína frá Hólmavík suður í Bitru og önnur út Hrútafjörðinn.

Nú þegar hafa um 40 kílómetrar af ljósleiðara og háspennustreng verið lagðir og styttist í að strengurinn verði kominn í jörðu á milli Hvítarhlíðar í Bitru og Þorpa við Steingrímsfjörð. Tveir hópar hafa unnið að lagningunni og mætast í Kollafirði á næstu dögum. Alls er leiðin sem lögð verður nú í haust um 115 km löng.

Um er að ræða ljósleiðarastofnstreng með möguleika á tengingum ljósleiðaraheimtauga inn á strenginn, en heimtaugar eru ekki hluti þessa samnings. Íbúar í dreifbýlinu á sunnanverðum Ströndum fá því ekki ljósleiðaratengingar á þessu ári og ekki hefur fengist staðfest hvenær það verður.