04/10/2024

Ljósmyndasýningin Mundi eftir Grímu Kristinsdóttur

Ljósmyndasýningin Mundi eftir Grímu Kristinsdóttir ljósmyndara var opnuð á Hamingjudögum á Hómavík á dögunum. Sýningin er til húsa í Hnyðju (neðri hæð Þróunarsetursins á Höfðagötu 3 á Hólmavík) og er opin á skrifstofutíma Strandabyggðar frá 10-14 á virkum dögum. Myndefnið er sótt í Árneshrepp þar sem Gríma tók m.a. myndir af lífi feðga sem bjuggu þar saman. Í sýningarskrá er texti eftir Jón Proppé og þar segir: „Sonurinn flytur til Reykjavíkur þar sem einhverja vinnu er að hafa en pabbi hans verður eftir og veikist alvarlega skömmu síðar. Sem bakgrunn þessarar sögu myndar Steinunn Gríma líka líf fólksins í þessari harðbýlu sveit og náttúrulegt umhverfið með sínum tignarlegu fjöllum og endalausri hafsýn. Við skynjum hve erfitt er að þurfa að víkja úr þessari paradís.“

Áfram segir í sýningarskránni um þessa sérlega áhugaverðu og fallegu sýningu: „Sagan um eyðingu afskekktra byggða er allt of flókin til að hægt sé að gera henni skil í nokkrum ljósmyndum en Steinunn Gríma veitir okkur innsýn í þennan heim og gerir það af þeirri nærgætni og virðingu sem viðfangsefninu ber.“

Mundi á Finnbogastöðum er sjálfur búinn að heimsækja sýninguna, kom við í Hnyðju á þriðjudaginn var.