28/03/2024

Strandabúðin: Heimsmarkaður opnast

StrandabúðinUndanfarið hefur Strandagaldur unnið að hverskyns markaðsmálum í framhaldi af vel heppnaðri þróunarvinnu á minjagripum fyrir Galdrasýninguna. Meðal annars er unnið að því að betrumbæta netsölusíðu Galdrasýningar á Ströndum, en hún verður stórbætt og gerð aðgengilegri á allan máta. Nýja síðan hefur hlotið nafnið Strandabúðin, en stefnt er að því að í henni verði hægt að nálgast sem flestar vörur og vöruflokka af Ströndum. Framleiðendum handverks, hákarls, harðfisks og raunar alls sem nöfnum tjáir að nefna er velkomið að nýta sér síðuna og koma þannig vörum sínum á framfæri um veröld alla, allan ársins hring. Kynningarfundur verður haldinn n.k. sunnudag kl. 17:00 í húsnæði sýningarinnar við Höfðagötu, þar sem Strandabúðin verður kynnt og eru allir velkomnir.

Að sögn Sigurðar Atlasonar verslunarstjóra Strandabúðarinnar er nýja sölusíðan mjög öflug og heldur vel utan um alla sölu. Til að byrja með verður eingöngu hægt að greiða fyrir vörur með millifærslu í gegnum banka eða netbanka, en fljótlega verður einnig hægt að versla með greiðslukortum í öruggu og tryggu umhverfi.

„Það er óskandi að framleiðendur handverks á Ströndum nýti sér þennan möguleika," segir Sigurður, „en það er enginn kostnaður því samfara að skrá vöruna. Strandabúðin mun leggja ákveðna upphæð á hverja vöru til að dekka umsýslukostnað, s.s. pökkun og afgreiðslu sendingarinnar á pósthús." Að sjálfsögðu er öllum öðrum s.s. tónlistarútgefendum, bókaútgefendum og fleiri aðilum á Ströndum eða sem tengjast þeim, velkomið að skrá vörur í Strandabúðina.

Strandabúðin mun opna formlega á mánudaginn kemur og Sigurður vill hvetja fólk til að skoða síðuna um helgina og fikta eins og það getur og prófa sig áfram. Það þarf enginn að hafa áhyggjur af því að vera rukkaður um nokkra verslun, því ferlið fer ekki formlega af stað fyrr en kaupandinn hefur greitt fyrir vöruna í gegnum heimabanka eða banka. „Auk þess sem á síðunni eru að finna allskyns skringivörur sem eru hvergi til og undarlega prufuframleiðendur með skrítnum nöfnum sem eiga sér alls enga stoð í raunveruleikanum, en þeir verða hreinsaðir út fyrir mánudagsmorgun þegar Strandabúðin hefur formlegan rekstur," segir Sigurður að lokum.

Hér er tengill inn á Strandabúðina, en það má alveg eins búast við einhverjum truflunum þar næstu tvo daga, þar sem enn er verið að ganga frá lausum endum í sölusíðunni.

Enski hluti síðunnar verður birtur þegar greiðslukortakerfið verður tekið í gagnið.

.