12/12/2024

Stórskemmtilegt spunakvöld

Í lok ársins stóð Leikfélag Hólmavíkur fyrir spuna- og skemmtikvöldi á Hólmavík og tókst afbragðs vel til, þótt áhorfendur hefðu mátt vera fleiri. Söngtríóið Vaka tróð upp með lög Jónasar og Jóns Múla og einnig kepptu 4 tveggja manna lið í spunaleik og var að venju dregið um hverjir léku saman. Það var liðið Hjónakornin sem fór á endanum með sigur af hólmi eftir harða keppni. Það lið samanstóð af hjónunum Ester Sigfúsdóttur og Jóni Jónssyni á Kirkjubóli, en þau drógust einnig saman og sigruðu á síðasta ári. Arnar S. Jónsson var hins vegar valinn Spunatröll Leikfélagsins af áhorfendum.

Margir skemmtilegir leikþættir litu þarna dagsins ljós og má til dæmis nefna spunaþáttinn Vegurinn um Arnkötludal sem liðið Hjónakornin lék í biblíusögustíl. Einnig má nefna stórleik Spunatröllsins Arnars og Jóhönnu Ásu Einarsdóttur í liðinu Ennisættin, í spunaþættinum sem bar nafnið Óeirðir á Kárahnjúkum. Þann leikþátt léku þau í Shakespear-stíl og var innlifunin svo mikil að leikararnir töluðu allan tímann í bundnu máli eftir að hafa fengið hefðbundinn 10 sekúndna umhugsunartíma.