29/03/2024

Spurningakeppnin klárast í kvöld

Í kvöld ráðast úrslitin í Spurningakeppni Strandamanna 2007, en keppnin hefst kl. 20:00 í Félagsheimilinu á Hólmavík. Fjórtán lið hófu þátttöku í keppninni en nú standa einungis fjögur lið eftir; Hólmadrangur, Kennarar við Grunnskólann á Hólmavík, Skrifstofa Strandabyggðar og Ungmennafélagið Neisti. Tvö þessara liða hafa áður unnið keppnina, kennarar árin 2003 og 2005 og Hólmadrangur í fyrra, árið 2006. Það má búast við mikilli spennu í félagsheimilinu í kvöld og baráttan um Viskubikar Sauðfjársetursins hefur sjaldan verið harðari en nú. Viðureignir kvöldsins eru þessar:

Skrifstofa Strandabyggðar – Kennarar Hólmavík
Umf. Neisti – Hólmadrangur

Liðin sem sigra mætast síðan í hreinni úrslitaviðureign eftir hlé. Arnar S. Jónsson er spyrill og dómari.

Aðgangseyrir er kr. 500.- fyrir 16 ára og eldri og  gos, nammi og kaffi verður til sölu í hléi.