26/12/2024

Spurningakeppnin á sunnudaginn

Annað keppniskvöld í Spurningakeppni Strandamanna verður haldið í Félagsheimilinu á Hólmavík nk. sunnudag, þann 11. mars. Keppnin hefst kl. 20:00 og er fólk hvatt til að mæta tímanlega. Af liðunum átta sem keppa eru tvö frá Drangsnesi, eitt úr Tungusveit og fimm frá Hólmavík. Síðasta kvöld komust Heilbrigðisstofnunin á Hólmavík, kennarar við Grunnskólann á Hólmavík og Skrifstofa Strandabyggðar áfram í átta liða úrslit, en Hólmadrangur getur enn komist áfram sem stigahæsta taplið með 18 stig. „Við ætlum að sleppa skemmtiatriðunum að þessu sinni til að kvöldinu ljúki eins snemma og hægt er og spyrillinn ætlar að vera óskaplega fljótur og einbeittur en líka svolítið skemmtilegur,“ sagði Arnar S. Jónsson í samtali við strandir.saudfjarsetur.is.

„Svo ætlum við að draga í átta liða úrslit þegar allar keppnirnar eru búnar. Vonandi verður hörð barátta um síðasta sætið í átta liða úrslitunum, en ef tvö lið verða jöfn sem stigahæsta tapliðið fer það lið áfram sem tók þátt í keppni sem hafði hærra samanlagt stigaskor. Ef enn er jafnt köstum við upp 100 kallinum hans Ása á Hnitbjörgum og skerum úr úrslitunum þannig.“ 

Gos og sælgæti verður til sölu í hléi, en aðgangseyrir er aðeins kr. 500 fyrir 16 ára og eldri.

Keppnir sem fram fara á sunnudaginn eru:

Ungmennafélagið Neisti – Vegagerðin
Sparisjóður Strandamanna – Félag eldri borgara
Leikfélag Hólmavíkur – Ferðaþjónustan Kirkjuból 
Kaupfélag Steingrímsfjarðar – Grunnskólinn Drangsnesi