22/12/2024

Spurningakeppnin – 1. umferð

StrandagaldurRétt í þessu var verið að draga í fyrstu umferð Spurningakeppni Strandamanna 2005. Það er Sauðfjársetur á Ströndum sem stendur fyrir spurningakeppninni, en spyrill þetta árið verður Kristín S. Einarsdóttir á Hólmavík. Sextán lið skráðu sig til leiks og ljóst er að margar forvitnilegar, jafnar og skemmtilegar viðureignir eru í aðsigi í fyrstu umferð keppninnar sem fer fram á tveimur keppniskvöldum, sunnudagana 6. og 20. febrúar.

Keppnin mun fara fram í Félagsheimilinu á Hólmavík og hefst kl. 20:00 öll kvöldin.

Viðureignirnar sem fara fram fyrra kvöldið, þann 6. febrúar, eru þessar:

  • Snerpa – Sparisjóður Strandamanna
  • Félag eldri borgara – Bitrungar
  • Strandagaldur – Strandahestar
  • Heilbrigðisstofnun Hólmavíkur – Hólmadrangur
Keppnir á seinna kvöldinu, sunnudaginn 20. febrúar, eru eftirfarandi:

  • Fiskvinnslan Drangur – Félagsmiðstöðin Ozon
  • Kvenfélagið Iðunn – Skrifstofa Hólmavíkurhrepps
  • Nemendur Hólmavíkurskóla – strandir.saudfjarsetur.is
  • Grunnskólinn Drangsnesi – Kennarar Hólmavíkurskóla
Meistararnir frá því í fyrra, Strandagaldur, hefja titilvörnina gegn Strandahestum. Lið Strandagaldurs er nokkuð breytt frá því liði sem vann á úrslitakvöldinu í fyrra, en enginn þeirra sem fagnaði þá er í liðinu nú. Strandahestar hafa hins vegar sama mannskap og hin tvö árin.

Ánægjulegt er að sjá að nokkur ný lið eru mætt til leiks og sérstök ástæða er til að bjóða Kvenfélagið Iðunni í Hrútafirði velkomið til keppninnar en þetta er í fyrsta skipti sem lið úr Bæjarhreppi tekur þátt í keppninni. Þá er einnig gaman að geta þess að lið Snerpu mun verða með ísfirsku ívafi, þannig að óhætt er að segja að keppnin sé farin að teygja sig yfir í aðra landshluta. Önnur lið sem ekki hafa tekið þátt áður en eru með nú, eru lið Félagsmiðstöðvarinnar Ozon á Hólmavík og að sjálfsögðu sendir strandir.saudfjarsetur.is þrjá vaska fréttaritara til keppni.