12/12/2024

Spurningakeppni Strandamanna

Strandagaldur 2004Núna rétt áðan lauk fyrsta keppniskvöldinu í Spurningakeppni Strandamanna 2005. Átta lið öttu kappi í fjórum spennandi viðureignum og oft var gríðarlega mjótt á munum. Liðin sem komust áfram í kvöld voru lið Sparisjóðs Strandamanna, Bitrungar, Strandahestar og Hólmadrangur. Keppninni verður framhaldið eftir hálfan mánuð, sunnudaginn 20. febrúar.

Í fyrstu viðureign kvöldsins áttust við lið Snerpu og Sparisjóðs Strandamanna, en tveir meðlimir Snerpu komu alla leið frá Ísafirði til að keppa. Keppnin var geysispennandi allan tímann og úrslit réðust ekki fyrr en í síðustu spurningu. Munurinn á liðunum í lokin var aðeins tvö stig, 17-15 Sparisjóðnum í vil.

Önnur keppnin var á milli Bitrunga og Félags eldri borgara. Eldri borgarar stóðu sig geysivel gegn silfurliðinu frá því í fyrra. Undir lokin var afar mjótt á munum, en Bitrungar höfðu nauman sigur 14-12. Félag eldri borgara má vel við una.

Eftir hlé þar sem gestir fengu sér nammi og gos hófst keppnin á ný með viðureign Strandahesta og Strandagaldurs, meistaranna frá því í fyrra. Þessi sömu lið mættust í átta liða úrslitum í fyrra og þá vann Strandagaldur 30-20. Strandahestar mættu hins vegar grimmir til leiks og höfðu nauman sigur í stórskemmtilegri keppni þar sem bæði lið reyttu af sér brandara. Stigatalan í lokin var 26-23 fyrir Strandahesta.

Síðasta keppni kvöldsins var viðureign Heilbrigðisstofnunar Hólmavíkur og Hólmadrangs. Staðan eftir hraðaspurningar var mjög jöfn en í bjölluspurningum sigu Hólmadrangsmenn smám saman fram úr þrátt fyrir harða baráttu kvennanna í Heilbrigðisstofnunarliðinu. Lokatölur urðu 18-13 fyrir Hólmadrang. Það gengur bara betur á næsta ári!

Mikið fjölmenni var á keppninni sem endranær. Kristín S. Einarsdóttir sem tók við spyrilshlutverkinu stóð sig með prýði en hljóðið var aðeins að stríða mönnum fyrir hlé. Það var lagað skjótt og vel af tæknigúrúnum Bjarna Ómari Haraldssyni. Það er ekki spurning að keppnin í ár verður jöfn og spennandi og því vilja strandir.saudfjarsetur.is hvetja alla sem vettlingi geta valdið að mæta og hvetja sína menn!
Næsta keppniskvöld verður haldið sunnudaginn 20. febrúar og hefst keppnin í Félagsheimilinu á Hólmavík kl. 20:00.