11/10/2024

Spennan eykst í spurningakeppninni

Nú er komið að sex liða úrslitum í Spurningakeppni Strandamanna og spennan eykst hröðum skrefum. Á sunnudagskvöldið kemur í ljós hvaða lið komast á úrslitakvöldið, en það verða þau þrjú lið sem sigra í sínum viðureignum, auk þess sem stigahæsta tapliðið kemst áfram í úrslitin. Keppnirnar eru hver annarri skemmtilegri og allt getur gerst. Fyrst fer fram keppni Hólmadrangs og Strandamanna í Kennaraháskólanum, næst verður keppni Leikfélags Hólmavíkur og Sparisjóðs Strandamanna og þriðja keppni kvöldsins verður á milli Kennara í Grunnskólanum á Hólmavík og Kaupfélags Steingrímsfjarðar. Keppnin fer fram í Félagsheimilinu á Hólmavík og hefst kl. 20:00.

Myndir frá síðasta keppniskvöldi – ljósm. Arnar S. Jónsson