22/12/2024

Sparkvöllur vígður á Hólmavík

Sparkvöllurinn við Grunnskólann á Hólmavík verður vígður í dag, fimmtudaginn 6. október. Ekkert varð úr vígslunni síðasta fimmtudag, þar sem fulltrúi KSÍ komst ekki á staðinn. Allir aðrir mættu þá og töluðu gárungarnir um að völlurinn yrði vígður vikulega til jóla, enda hafði verið orðrómur á kreiki um vígslu vallarins fimmtudagana á undan líka. En nú hefur Eyjólfur Sverrisson fyrrverandi landsliðsmaður og leikmaður með Hertu Berlín, Stuttgart, Tindastóli og fleiri stórliðum sem sagt staðfest komu sína í dag og verður fulltrúi KSÍ við vígsluna sem hefst kl. 14:00. Allir eru hjartanlega velkomnir á viðburðinn.