10/12/2024

Spánverjavígin á Ísafirði

Fræðaverkefnið Vestfirðir á miðöldum sem Strandagaldur er þátttakandi í og Sögufélag Ísfirðinga halda stutt málþing um Spánverjavígin laugardaginn 10. mars frá kl. 14-17 í Háskólasetri Vestfjarða. Frá þessu segir á bb.is. Málþingið er haldið í tengslum við útgáfu á Ársriti Sögufélags Ísfirðinga sem byggir á fyrirlestrum frá ráðstefnu um Spánverjavígin sem haldin var í Dalbæ á Snæfjallaströnd síðasta sumar. Þar komu saman íslenskir fræðimenn, breskir og baskneskir til að kryfja þessa atburði til mergjar og átta sig á sögulegu samhengi þeirra.

Á mælendaskrá eru Magnús Rafnsson, sagnfræðingur og stjórnarformaður Strandagaldurs, Már Jónsson prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, Ólafur J. Engilbertsson sagnfræðingur og forstöðumaður Snjáfjallaseturs og Torfi H. Tulinius prófessor í frönsku og miðaldabókmenntum. Auk þess mun skáldið Sjón segja frá sinni sýn á þessa atburði en hann vinnur um þessar mundir að ritun skáldsögu um Jón lærða Guðmundsson sem er einn helsti heimildamaður okkar um Spánverjavígin 1615.

Málþingið er öllum opið. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.