26/04/2024

Skýrsla vegna fornleifarannsóknanna á Strákatanga komin út

Greinargerð vegna annars áfanga fornleifarannsóknanna á hvalveiðistöðinni á
Strákatanga í Hveravík er komin út. Hún er unnin af Ragnari Edvaldssyni
fornleifafræðingi og Magnúsi Rafnssyni sagnfræðingi. Í skýrslunni er farið yfir
rannsóknirnar sem fóru fram á liðnu hausti. Í henni kemur m.a. fram að
hvalveiðistöðin hafi að öllum líkindum verið nýtt af fleiri þjóðum en böskum á 17. öld en heimildir sýna að hvalveiðistöðvarnar voru ekki nýttar af sömu þjóðinni og skiptu jafnvel um eigendur milli ára. Í N-Noregi hafa 17 stöðvar verið skráðar og nokkrar til viðbótar á Svalbarða. Engar hvalveiðistöðvar hafa verið rannsakaðar áður á Íslandi. Frekari rannsóknir fara fram næsta sumar. Greinargerðina er hægt að nálgast með því að smella hér.

 

Rannsóknin á Strákatanga er einstök í íslenskum fornleifarannsóknum þar eð
rannsakaðar voru minjar sem litlar eða engar heimildir eru til um. Einnig er það
einstakt í íslensku samhengi að fundist hafi minjar um búsetu erlendra
hvalveiðimanna á Íslandi frá 17. öld. Hvergi í rituðum heimildum er minnst á að
erlendir hvalveiðimenn hafi byggt hvalveiðistöð í landi og stundað þar
lýsisbræðslu í nokkra áratugi. Heimildir tala fyrst og fremst um hvalveiðiskip í
kringum landið en helst er minnst á erlenda hvalveiðimenn í landi í tengslum við
skipbrot. Vera þessara erlendu manna í landi á þeim tíma þegar að samskipti og
verslun við útlendinga var að mestu leiti bönnuð vekur upp ýmsar spurningar sem
erfitt er að svara án frekari rannsókna.
Bræðsluofninn var í upphafi hvalveiða hlaðinn úr grjóti en líklegt er
að ofninn hafi þróast og síðar hafi menn tekið að nota múrsteina í ofninn þar
sem að ofn byggður úr múrsteinum heldur betur hita en ofnar hlaðnir úr grjóti. Í
Red Bay í Kanada voru ofnarnir byggðir úr grjóti en í Noregi og á Svalbarða hafa
fundist ofnar hlaðnir úr múrsteinum. Þeir ofnar sem rannsakaðir hafa verið voru
hringlaga, strýtulaga og opnir að ofan. Á hliðinni var op þar sem eldsneyti var
sett í ofninn og fyrir framan það grafinn grunnur skurður. Teikningar og málverk
frá 17. öld staðfesta allar þetta útlit ofnanna og sýna einnig að í sumum
tilfellu voru ofnarnir annarar gerðar, þ.e. einföld hringlaga hola grafinn niður
í jörðina.

Rannsóknin er unnin í samstarfi Strandagaldurs og fornleifadeild Náttúrustofu Vestfjarða.

Skoða greinargerð 2006.
Skoða greinargerð 2005.


Hugmynd um útlit lýsisbræðslunnar á 17. öld.
Teikning: Ragnar Edvardsson