18/04/2024

Hjólar Vestfjarðahringinn fyrir Grensás

Þann 22. júní lagði kontrabassaleikarinn Hávarður Tryggvason „Ísfirðingur“ upp í hjólreiðaferð um Vestfirði og er tilgangur ferðarinnar að safna framlögum fyrir átak hollvina til styrktar Grensásdeild. Lagt var upp frá Ísafirði og hjólað rangsælis um Vestfjarðakjálkann. Hávarður hóf fimmtu dagleiðina í Djúpadal í morgun, fór um Steinadalsheiði og er nýlega kominn í náttstað á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð, eftir að hafa barist gegn hvassri norðaustanátt daglangt. Alls er hjóluð 700 km vegalengd. Hægt er að fylgjast með ferðalaginu á Facebook síðunni Á rás fyrir Grensás.

Ferðina fer Hávarður til að fagna 50 ára afmæli sínu og til að vekja athygli á átakinu Á rás fyrir Grensás sem er yfirskrift söfnunarátaks sem Edda Heiðrún Backman hefur staðið fyrir undir merkjum Hollvina Grensásdeildar. Markmið átaksins er að safna fyrir nýrri 1500 fermetra viðbyggingu við Grensásdeild sem mun hýsa sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og fleira. Fjölmargir aðilar hafa nú þegar lagt  átakinu lið og má þar nefna Gunnlaug Júlíusson langhlaupara sem skokkaði til  Akureyrar til styrktar málefninu.

Með bættri þjálfunaraðstöðu í nýju húsnæði á Grensás skapast tækifæri til að bæta aðstöðu sjúklinga og fjölskyldna þeirra, jafnt innan dyra sem utan. Þar ber hæst nauðsynlegar lagfærar á sjúkraherbergjum, sem verða öll einbýli, þjálfunaríbúð, matsalur, endurhæfingargarður og endurskipulagning lóðar m.t.t. aðkomu og aðgengis.

Þeim sem vilja styrkja verkefnið er bent á heimasíðu Grensásdeildar www.grensas.is undir liðnum Á rás fyrir Grensás eða á söfnunarreikning átaksins, reikningsnúmer: 311-26-3110, kennitala: 670406-1210. Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is óskar Hávarði góðs gengis í glímunni við Steingrímsfjarðarheiðina og Djúpið og hvetur Strandamenn til að taka þátt í átakinu og styðja gott málefni. Það er ekki sjálfgefið að geta hreyft sig að vild.

 bottom

frettamyndir/2011/640-havardur1.jpg

Hávarður Tryggvason kominn í náttstað í lok fimmtu dagleiðar – ljósm. Jón Jónsson