29/04/2024

Skráning hafin í Karaokekeppni vinnustaða

Nú er undirbúningur fyrir Karaoke-keppni vinnustaða á Ströndum í fullum gangi. Keppnin er nú haldin þriðja árið í röð, en það er veitingastaðurinn Café Riis sem stendur fyrir atburðinum eins og fyrri árin. Leiða má líkur að því að mikil eftirvænting ríki eftir keppninni á hinum ýmsu vinnustöðum, enda hefur hún vakið mikla athygli víða um land í þau tvö skipti sem hún hefur farið fram. Í ár verða haldin tvö keppniskvöld í Bragganum og keppninni síðan slitið með stórdansleik með hljómsveitinni Kokteill. Hver vinnustaður má senda tvö atriði til leiks og keppendur mega syngja einir eða saman í dúett. Aldurstakmark í keppnina er 18 ár og skráning fer fram hjá Báru í s. 897-9756 eða Rúnu Mæju í s. 896-4829.

Fyrra úrslitakvöldið fer fram í Bragganum þann 22. september og sama kvöld verður í boði pizzahlaðborð á Café Riis. Þá mun hver þátttakandi flytja eitt lag og munu síðan átta keppendur verða valdir til að halda áfram og taka þátt á úrslitakvöldinu. Í úrslitum flytja keppendur síðan eitt rólegt lag og eitt fjörugt. Nóg er til af karaoke-diskum í æfingaaðstöðu keppenda sem verður í Bragganum, en einnig getur fólk útvegað sér lög sjálft ef það vill. 

Skráningu lýkur föstudaginn 14. september nk. en gott væri ef þeir sem hyggjast taka þátt í þessari stórskemmtilegu keppni skráðu sig sem allra fyrst. Allar nánari upplýsingar um fyrirkomulag og reglur keppninnar veitir Bjarni Ómar Haraldsson í s. 892-4666 eða 465-1344.

Fyrri sigurvegarar eru Stefán Jónsson sem sigraði árið 2005 og Sigurður jr. Vilhjálmsson sem sló í gegn í keppninni í fyrra.