27/04/2024

Skötuveisla í Dröfninni

Í dag er Þorláksmessa og henni tilheyrir skötuátið sem er að breiðast út um land allt frá Vestfjörðum. Það verða sjálfsagt allnokkrir Strandamennirnir sem fá sér skötu í dag. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra segir á vef sínum frá því að Gunnar Jóhannsson frá Hólmavík, eigandi Drafnarinnar, hafi boðið honum og fleirum í dýrindis skötuveislu ofan í skip. Þar voru auk þeirra bræður Gunnars, Guðmundur og Marinó, Magnús H. Magnússon (Maddi), Björn Friðrik Brynjólfsson aðstoðarmaður ráðherra og tengdasonur Gunnars, Árni Magnússon skólastjóri og Gunnar Þórðarson á Ísafirði. Þessi veisla fór svo fram undir styrkri stjórn Rúnars vélstjóra og snilldar skötukokks, segir Einar á heimasíðunni.

Strandamenn og Vestfirðingar snæða skötu – ljósm. af www.ekg.is.