30/10/2024

Skorað á Snúllu

Það dregur heldur en ekki til tíðinda í tippleik strandir.saudfjarsetur.is á næstu helgi. Baldur Smári Ólafsson sem datt úr leiknum nú á laugardaginn fékk nefnilega þá flugu í höfuðið á skora á Ásdísi Jónsdóttur á Hólmavík að etja kappi við Gunnar Braga Magnússon á næstu helgi. Þetta þykir athyglisvert í ljósi þess að Ásdís er einungis annar fulltrúi kvenþjóðarinnar hingað til í leiknum og ekki síður vegna þess að hún hefur alls engan áhuga á enska boltanum, hefur aldrei tippað, þekkir engar reglur í knattspyrnu og veit jafn mikið um Chelsea og hinn almenni fótboltaaðdáandi veit um lið Accrington Stanley (sem er nota bene í utandeildinni ensku). Þekkingarleysi sem þetta hefur þó oft komið sér vel í tippinu.

Það ætti því að verða afar skemmtilegt að lesa spá Ásdísar og fylgjast með slag hennar við spekingana í tippinu. Kannski er þetta eina rétta leiðin sem hægt er að fara í baráttunni við efsta mann leiksins, Jón Jónsson á Kirkjubóli, en hann er einmitt sonur Ásdísar.