11/09/2024

Hugur í vestfirskum ferðaþjónum

Framsæknir ferðaþjónustuaðilar á Vestfjörðum hafa tekið þátt í verkefni Útflutningsráðs, Hagvöxtur á heimaslóð, sem haldið hefur verið víðsvegar um Vestfirði undanfarna tvo mánuði. Námskeiðinu var skipt upp í þrjá hluta þar sem fjallað var um markaðsfræði og markaðssetningu í ferðaþjónustu út frá fjölmörgum sjónarhornum.  Fræðin voru kynnt með hagnýtum hætti svo þau nýtist fyrirtækjum og auki hag þeirra og svæðisins um leið. Fjölmörg fyrirtæki í hverskyns ferðaþjónusturekstri víða af Vestfjörðum tóku þátt í námskeiðinu og báru saman bækur sínar um farsælt samstarf og samkeppni.

Mikill hugur var í þátttakendum sem komust að niðurstöðu um sérstök samvinnuverkefni sem brýnt væri að vinna að. Auk fjölmargra annarra samvinnuverkefna var ákveðið að standa fyrir margskonar fræðslu-starfsemi innan greinarinnar og vinna að því að Vestfirðir hefðu upp á fjölbreyttari afþreyingu að bjóða í nánustu framtíð. 

Mikil vinna var lögð í að þróa hugmyndir með það að markmiði að nokkrir nýir vöruflokkar í afþreyingu á Vestfjörðum yrðu tilbúnir á markað fyrir sumarið 2007. Á námskeiðinu kom fram krafa um það að áfram yrði unnið að hugmyndum um þjóðgarðinn Látrabjarg – Rauðasandur og voru fulltrúar fyrirtækjanna sammála um að þjóðgarðurinn myndi styrkja ferðaþjónustu á Vestfjörðum og hafa jákvæð áhrif á vöxt ferðaþjónustu á Vestfjarðakjálkanum öllum.

Eftirtaldir aðilar tóku þátt í verkefninu: Birna Mjöll Atladóttir og Keran Stureland Ólason frá Ferðaþjónustunni Breiðavík, Guðmundur B. Eyþórsson frá Vesturferðum, Matthias Johannson frá Hótel Laugarhóli, Matthías Lýðsson frá Sauðfjársetri á Ströndum, Ásbjörn Magnúss og Valgerður Magnúsdóttir frá Stjóstöng og siglingar, Sigurður Atlason og Jón Jónsson frá Strandagaldri, Þórður Halldórsson frá Svaðilfara, Áslaug S. Alfreðsdóttir og Ólafur Örn Ólafsson frá Hótel Ísafirði, Elías Guðmundsson og Jóhanna Þorvarðardóttir frá Veg Guesthouse, Haukur Vagnsson frá Ferðamálafélagi Bolungarvíkur, Rúnar Óli Karlsson frá Ísafjarðarbæ, Viktoría Rán Ólafsdóttir og Jón Örn Pálsson frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða og Jón Páll Hreinsson frá Markaðsstofu Vestfjarða.
 
Verkefnisstjóri námskeiðsins er Guðjón Svansson frá Útflutningsráði Íslands en hann er Strandamaður, ættaður frá Svanshóli í Bjarnarfirði.