04/05/2024

Skólaakstur í Djúpinu boðinn út

Það vakti talsverða athygli þegar Strandabyggð bauð á dögunum út skólaakstur úr Djúpinu í Grunnskólann á Hólmavík, að í auglýsingunni var tekið sérstaklega fram að ekið skyldi frá Hólmavík að morgni og vestur yfir Steingrímsfjarðarheiði og börnin sótt. Allt frá því skólaakstur úr Djúpinu til Hólmavíkur hófst hafa íbúar vestan heiðarinnar séð um aksturinn, enda er sú aðferð í meiri takti við snjómokstur. Skólabíllinn er oftast kominn langleiðina yfir heiðina, þegar hann mætir moksturstækjum frá Hólmavík. Samkvæmt upplýsingum sveitarstjóra skiptir hins vegar ekki máli hvaðan lagt er upp og hægt er að gera tilboð óháð því, en útboðslýsingin orðuð með þessum hætti til að sýna akstursleið og vegalengd.

Ljóst er að það myndi breyta miklu fyrir skólaakstur, íbúa sem sækja vinnu yfir Steingrímsfjarðarheiði til Hólmavíkur eða á Nauteyri og þungaflutninga vestur á firði, ef lagt væri af stað í mokstur á heiðina hálftíma fyrr en gert hefur verið.