19/04/2024

Skipuleggja boltaleik á sunnudaginn

Næstkomandi sunnudag kl. 14:00 hefur áhugafólk um verndun gamla barnaskólans skipulagt sérstakan leikjadag við húsið. Ætlunin er að fara í hinn fornfæga boltaleik yfir sem fólk á öllum aldri ætti að kannast við úr æsku. Yfir fer þannig fram að kosið er í tvö lið sem raða sér síðan upp sitt hvoru megin við hús sem auðvelt er að henda bolta yfir. Kastað er upp á hvort liðið eigi að byrja og þegar boltanum er kastað þá er hrópað hátt og snjallt "yfir!". Liðsmenn hinu megin við húsið reyna að grípa boltann og ef það tekst þá hrópar sá "gripið!" og hleypur af stað eins hratt og hann getur í aðra hvora áttina í kringum húsið og reynir að hitta liðsmann úr hinu liðinu með því að kasta boltanum í hann.

Leikmenn hins liðsins hlaupa á flótta og harðaspretti um leið og þeir heyra hrópað "gripið" og gera tilraun til að ná í kringum húsið án þess að fá boltann í sig. Sá sem fær boltann í sig neyðist til að ganga til liðs við lið leikmannsins sem skaut boltanum í hann. Flóttahlaupararnir vita aldrei í hvora áttina sá sem greip hleypur og geta því óafvitað og frávita hlaupið beinustu leið í fang hans. Þannig gengur leikurinn þar til annað liðið hefur tapað öllum sínum leikmönnum yfir til liðs  "óvinarins".

Boltaleikurinn hefst kl. 14:00 á sunnudaginn og fólki á öllum aldri og án tillits til skoðana, er velkomið að mæta og taka þátt í þessum skemmtilega leik.

Þeir sem hafa áhuga á verndun hússins eru hvattir til að rita nafn sitt í sérstaka bónarbók sem hefur verið komið fyrir við eitt húshornið.