22/12/2024

Skíðagarpar skunda af stað

Starfsemi Skíðafélags Strandamanna í vetur er hafin af krafti, brautir hafa verið lagðar og aðalfundur verður haldinn fimmtudaginn 14. janúar kl. 18:00 í kaffistofu Hólmadrangs. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf. Starfsemi félagsins verður hefðbundin og æfingar verða með svipuðu sniði og síðasta vetur á þriðjudögum, föstudögum og sunnudögum. Þjálfarar eru þeir sömu og undanfarna vetur, Ragnar Bragason og Rósmundur Númason. Fyrsta mót vetrarins er fyrirhugað næsta laugardag 16. janúar og er Skíðafélagsmót með hefðbundinni aðferð.

Stærsta skíðamót vetrarins á Ströndum, Strandagangan, sem er hluti af mótaröðinni Íslandsgangan, fer að þessu sinni fram laugardaginn 13. mars. Þetta er í 16. skipti sem Strandagangan er haldin.  

Fimm Strandamenn hafa tekið stefnuna á Vasa-gönguna miklu þetta árið. Þetta eru Birkir Stefánsson og Rósmundur Númason sem eru að fara þriðja árið í röð. Í hálfvasa ætla Sigríður Drífa Þórólfsdóttir og Jóhanna Rósmundsdóttir og í barnavasa fer Númi Leó Rósmundsson. Það er skemmtilegt að sjá árlega fjölgun í hópi Strandamanna sem tekur þátt í þeirri frábæru upplifun sem Vasagangan er. Á heimasíðu Skíðafélagsins á slóðinni http://sfstranda.blogcentral.is/ verða fluttar fréttir af Vasagöngunni, skíðaæfingum og skíðamótum.