09/09/2024

Strandamannamót, spunakeppni og hrútaþukl á næstunni

Ágústmánuður er stór mánuður hjá Sauðfjársetrinu í Sævangi, en þá verða haldnar nokkrar stórskemmtanir. Meðal þeirra er hið landsþekkta Meistaramót í hrútadómum sem nú fer fram sunnudaginn 26. ágúst ásamt landsspunakeppninni Ull í fat, en einnig verður stórhátíð laugardaginn 25. ágúst. Þá verður bændahátíð færð í nýjan búning og á nýjan stað, en hún mun fara fram í félagsheimilinu á Hólmavík og fær nafngiftina Strandamannamót. Sama laugardagskvöld verður síðan haldinn dansleikur í félagsheimilinu og er hann kallaður Þuklaraball. Ekki liggur ljóst fyrir hvað sú nafngift felur í sér, en leiða má líkur að því að margir hugsi sér gott til glóðarinnar að æfa sig fyrir hrútaþuklið á ballinu.

"Skemmtiatriðin á Strandamannamótinu verða með glæsilegra móti núna. Við erum með atvinnuveislustjóra og frábæran ræðumann, og maturinn verður ekki af verra taginu – ekta holusteikt lambakjöt af Ströndum og ís í eftirrétt. Ég hugsa að það sé rétt að segja ekkert meira akkúrat núna um mótið, en atburðurinn verður auglýstur vel og vandlega í næstu viku," sagði Arnar S. Jónsson, framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins í samtali við strandir.saudfjarsetur.is.

"Þá er það frábært fyrir okkur að hafa fengið spunakeppnina Ull í fat hingað á Strandirnar, en hún mun fara fram á sama tíma og Hrútadómarnir úti í Sævangi. Í keppninni reyna menn að koma ull í fat á sem allra stystum tíma og beita ýmsum brögðum og kúnstum sem valinkunn dómnefnd dæmir síðan út frá sérþekkingu sinni. Þetta er fín viðbót við hrútadómana sem eru alltaf að verða vinsælli og vinsælli," sagði Arnar.

Næsti atburður hjá Sauðfjársetrinu er hins vegar Dráttarvéladagur og töðugjöld. Hann hefst nk. sunnudag 12. ágúst kl. 14:00 og aðalatriðið þar er keppni í ökuleikni á dráttarvél. Þá verður kaffihlaðborð í Sævangi gegn vægu verði.