29/05/2024

Skemmdarverk unnin í Borgunum

Háborgarvarðan í KálfanesborgumEinhverjir óprúttnir sóðar gerðu sér nýverið að ljótum leik að vinna skemmdarverk á Háborgarvörðu sem ber hæst í Kálfanesborgum fyrir ofan Hólmavík. Grjóti hefur verið rutt ofan af vörðunni og gestabók sem var í vatnsheldum hólki í vörðunni var rifin og tætt og rifrildi úr henni fundust á bölunum í kring. Göngustígur var lagður um Borgirnar af unglingavinnunni á Hólmavík fyrir rúmum 10 árum en svæðið hefur síðan þá verið eitt helsta útivistarsvæði Hólmvíkinga. Fjöldi manna leggja leið sína um stíginn dag hvern og njóta þeirrar ánægju að á við vörðuna og skilja eftir sig spor í gestabókinni.

Eftir því sem strandir.saudfjarsetur.is kemst næst þá var Háborgarvarða reist af landmælingamönnum fyrir um það bil 70 árum. Á sama tíma voru reistar landmælingavörður uppi á Kálfanesfjalli og úti á Reykjanesi í mynni Steingrímsfjarðar en þær voru svo notaðar til þríhyrningsmælinga til að finna út hæð landslagsins.

Útivistarunnandi á Hómavík sem nýtur starfa unglingavinnunnar fyrir 10 árum upp á nánast hvern dag, rak augun í skemmdirnar fyrir nokkru og vill helst líkja þessum vafasama gjörningi við helgispjöll.

Ekki er ennþá vitað hverjir stóðu fyrir verknaðinum.

 
.
Skemmdarverk hafa verið unnin á Háborgarvörðu í Kálfanesborgum