04/05/2024

Síminn ögrar Strandamönnum

Samkvæmt upplýsingum sem strandir.saudfjarsetur.is hefur aflað sér virðist vera sem Síminn beiti undarlegum aðferðum til að ná til sín viðskiptavinum. Um hádegisbil í gær bárust skilaboð frá sérfræðingi innan Símans að fyrirtækið hafi byrjað að bjóða ADSL tengingu á Hólmavík en síðan virðist sem ákveðið hafi verið að opna ekki fyrir hana strax. Þegar óþreyjufullur ADSL notandi hringdi á Sauðárkrók um miðjan dag til að panta þjónustuna, þá var því til svarað að ekki væri komið grænt ljós á skráningar og því borið við að það vantaði ennþá einhvern búnað. Allt er þetta því hið undarlegasta mál. Sérstaklega í ljósi þess að einhverjir notendur virðast hafa fengið skráningu, en ekki tengingu, þó fullyrt sé að búið sé að tengja alla þræði á símstöðinni.

Ekki hefur verið uppljóstrað af Símanum hvaða búnaður það er sem vantar til að geta hafið notkun á kerfinu. Samkvæmt upplýsingum sem strandir.saudfjarsetur.is hefur þá flytur fyrirtækið Tæknivörur inn beina (routera), sem er búnaður sem þarf inn á hvert heimili. Í augnablikinu eru engir beinar til á lager hjá fyrirtækinu og þarf því ekki mikið hugmyndaflug til að álykta að það sé búnaðurinn sem Símanum vanhagar á lager hjá sér. Þess má geta að Snerpa á Ísafirði hafði tryggt sér búnaðinn í tíma og hefur þegar komið honum fyrir hjá 30 notendum á Hólmavík.

Það virðist því vera að Síminn sé að beita algerlega óviðunandi viðskiptaaðgerðum og ætli sér ekki að opna fyrir tenginguna fyrr en fyrirtækið er tilbúið að selja fulla þjónustu til notenda og ætli sér með því að koma í veg fyrir það forskot sem Snerpa hefur þegar unnið sér á markaðnum, með því að hugsa meira en tvo daga fram í tímann. Allt bitnar þetta svo á tilvonandi notendum á Hólmavík sem hafa verið dregnir á asnaeyrunum af hendi Símans um margra mánuða skeið.

Það hlýtur þá að vera krafa Hólmvíkinga að Síminn opni fyrir sambandið frá símstöðinni strax í dag til þeirra notenda sem eru þegar tilbúnir að taka við ADSL-inu og opni á skráningar hjá þeim aðilum sem ætla sér að skipta við Snerpu, í stað þess að bíða með það í viku eða tvær til að krafsa yfir eitthvað klúður innan einhverrar vöruinnkaupadeildar hjá Símanum.