09/09/2024

Sigurmyndin í ljósmynda- samkeppninni Göngur og réttir

Nú er grasið farið að grænka, grundirnar að gróa og kominn tími til að tilkynna úrslit myndasamkeppninnar Göngur og réttir á Ströndum 2007 sem Sauðfjársetur á Ströndum stóð fyrir í samvinnu við strandir.saudfjarsetur.is. Mörg hundruð myndir bárust í keppnina, en lesendur strandir.saudfjarsetur.is kusu milli sex þeirra í úrslitum sem fóru fram eftir áramót. Þátttakan í kosningunni var frábær því nokkur hundruð atkvæði bárust og mjótt var á munum í lokin. Sigurmyndin var tekin í Árneshreppi, en ljósmyndarinn er flestum vel kunnur – hann heitir Hrafn Jökulsson og býr í Trékyllisvík í Árneshreppi. Hrafn mun taka við verðlaunum og viðurkenningu fyrir sigurinn við opnun Sauðfjársetursins í Sævangi á sjómannadaginn 1. júní nk. Sigurmyndina má sjá hér fyrir neðan ásamt myndunum sem lentu í öðru og þriðja sæti.

Eins og sést á toppmyndunum er jafnan mikil stemmning á Ströndum þegar göngur og réttir eru í gangi. Nú er það hins vegar sauðburðurinn sem á hug fólks allan og að sjálfsögðu er fólki velkomið að senda skemmtilegar myndir eða fréttir úr honum til birtingar á vefnum strandir.saudfjarsetur.is eða á sýningu Sauðfjáretursins í Sævangi. Senda má myndir í netfangið saudfjarsetur@strandir.saudfjarsetur.is. Sauðfjársetrið og strandir.saudfjarsetur.is þakka öllum sem tóku þátt í keppninni með því að senda inn myndir eða kjósa sína uppáhaldsmynd kærlega fyrir. Hægt verður að skoða stærstan hluta myndanna sem tóku þátt í keppninni í Sævangi í sumar.

A

1. sæti – Hrafn Jökulsson

2. sæti – Gunnar Logi Björnsson

saudfjarsetur/myndakeppni3.jpg

3. sæti – Daníel Ingimundarson