08/11/2024

Sigurður Atlason er Strandamaður ársins 2009

Úrslit liggja nú fyrir í kosningu á Strandamanni ársins 2009, en í síðari umferð var kosið á milli áhafnarinnar á Grímsey ST-2, Ingibjargar Valgeirsdóttur frá Árnesi í Trékyllisvík og Sigurðar Atlasonar á Hólmavík. Það var að lokum Sigurður Atlason sem stóð uppi sem Strandamaður ársins 2009, en hann hefur af og til lent í 2. eða 3. sæti í kjörinu síðustu ár. Af uppátækjum Sigga Atla sem er framkvæmdastjóri Strandagaldurs á síðasta ári má t.d. nefna opnun og rekstur á kaffihúsinu Kaffi Galdri og ýmislegt fleira sem rakið er hér neðar. Þátttaka í kosningunni á Strandamanni ársins hefur aldrei verið meiri og síðari umferð kosningarinnar var spennandi.

 Sigurður Atlason framkvæmdastjóri Strandagaldurs, hefur eins og oft áður verið áberandi á árinu 2009 við margvísleg uppátæki, framtak og frumkvæði. Sigurður sýndi á sér nýja og hæfileikaríka hlið þegar hann gerðist veitingamaður á Kaffi Galdri í sumarbyrjun í veitingatjaldi við Galdrasafnið á Hólmavík. Sigurður hefur verið áberandi sem formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða og leiðtogi ferðaþjónustuklasans Arnkatla 2008 og var mikilvægur aðili við undirbúning og hugmyndavinnu fyrir atvinnu- og menningarsýninguna Stefnumót á Ströndum. Eins hefur Sigurður komið nálægt stefnumótun í ferðaþjónustu, súpufundum á Café Riis, stuttmyndagerð, jóladagatali á vef Strandagaldurs með minningum eldri borgara, bíói fyrir börnin, að ógleymdu skautasvelli sem hann útbjó með mikilli fyrirhöfn á bílastæðinu við Galdrasafnið á Hólmavík. Galdrasvellið hefur vakið mikla lukku síðustu vikur.

Um Sigurð var sagt með sanni í tilnefningum að „framlag hans til menningar, ferðaþjónustu og afþreyingar á Ströndum sé ómetanlegt“, hann hafi „endalaust hugmyndaflug“, „auðgi mannlífið“ og komi að „mörgum framfara- og þróunarverkefnum“. Þá var einnig nefnt að Sigurður „gerði mikið fyrir ungdóminn“, og hefði unnið „metnaðarfullt og gjöfult starf í þágu menningar og lista á Ströndum“.