19/09/2024

Seljum GSM-sambandsleysið!

Kyrrð, friður og ró er huglægar vörur sem njóta sívaxandi vinsælda í heiminum og margt fólk er tilbúið að reiða fram stórfé til að njóta þess munaðar. Um þessar mundir auglýsir til að mynda ferðaskrifstofa nokkur í Bretlandi, Adventure Company, farsímalausar ferðir þar sem viðskiptavinirnir þurfa að skila inn farsímunum til skrifstofunnar áður en ferðin hefst, og njóta þess að vera án sífelldra hringinga, sérstaklega frá vinnustað. Þetta kemur fram á fréttavefnum Times Online, en ferðaskrifstofan hefur skipulagt símalausar ferðir í Himalayjafjöll og stefnir að svipuðum ferðum til Íslands, Marokkó og Perú.

Á Ströndum er GSM samband talið af heimamönnum heldur bágborið miðað við kröfur fólks í dag, en GSM merki er eingöngu send út í kringum þéttbýlisstaðina við Steingrímsfjörð og syðst í Hrútafirði, þrátt fyrir að GSM síminn sé gríðarlega mikið öryggistæki, ekki síst í dreifðum byggðum og í óbyggðum. Hvað sem því líður þá má vera að í nánustu framtíð geti Strandir boðið efnuðum ferðamönnum og öðrum sem kjósa kyrrð, frið og ró, án símhringinga í tíma og ótíma, kjöraðstöðu til að losna við ágang tækninnar, án þess að þurfa að taka af þeim símann, þar sem það er hvort eð er nánast engin leið að ná í þá á ferðalagi á Ströndum. Ekki með nokkru móti, nema með einhversskonar sendingum sem galdramenn einir kunna.

Því má bæta við að samkvæmt nýlegum tíðindum frá Póst og fjarskiptastofnun Íslands þá vantar aðeins 40 GSM síma til að fylla íbúatölu landsins. Það er því ekki ólíklegt að snemma í næstu viku verði fleiri GSM símar í notkun landans en allir Íslendingar til samans.