04/05/2024

Sauðfjársetrið dressað upp

Aðstandendur Sauðfjársetur á Ströndum hafa ákveðið að kveða við nýjum tón í markaðssetningu verkefnisins og ganga alla leið, eins og segir í tilkynningu frá Jóni Jónssyni framkvæmdastjóra Sauðfjársetursins. "Aðsóknin hefur ekki verið samkvæmt björtustu vonum, en við vonuðumst til að slá met síðasta árs og fá á sjötta þúsund gesta í júní. Það gekk ekki eftir og til að mæta tekjutapinu þá fór ég í Kolaportið og keypti mér þennan forljóta … forláta kjól, ætlaði ég að segja, til að dressa upp starfsfólkið og láta það fá betri tilfinningu fyrir sveitalífinu þar sem bévitans óþekkt hefur hrjáð bæði starfsmenn og heimalninga undanfarið."

Að sögn Jóns þá gekk honum illa að koma starfsfólkinu í fötin og til að þurfa ekki að kasta fjárfestingunni á glæ hefur hann ákveðið að klæðast kjólnum sjálfur og vera til sýnis við hlið Sauðfjárseturins og koma þannig fjöri í sauðsvartan almúgann sem brunar um þjóðveginn. „Ég er bjartsýnn á það að þetta skemmtilega og fjörlega uppátæki hægi allavega á umferðinni," sagði Jón að lokum og skellti yfir sig kjólnum þeim arna og arkaði sportlegur út að hliði, ábúðarfullur á svip.