19/04/2024

Samgönguáætlun hefur verið birt

Samgönguáætlun fyrir árin 2007-2010 og langtímaáætlun fyrir árið 2007-2018 hefur verið lögð fram á Alþingi og kennir þar ýmissa grasa. Fjármagn í fyrirhugaða vegagerð um Arnkötludal og Gautsdal sem fæst úr söluandvirði Símans er skipt eins og áður hefur komið fram þannig að 200 milljónir fara í verkið 2007 og 600 milljónir árið 2008. Nú bætist við fjármagn af samgönguáætlun að upphæð 100 milljónir árið 2008 og 40 milljónir árið 2009. Fram kemur að miðað sé við að vegurinn verði opnaður til umferðar haustið 2008 og honum verði að fullu lokið 2009.

Lagt er til að endurbyggður verði kaflinn Heydalsá–Þorpar sunnan Hólmavíkur árið 2010 og eru 95 milljónir ætlaðar það ár í verkefnið. Frekari fjárveitingar í endurbyggingar á veginum milli Brúar í Hrútafirði og Hólmavíkur bíða hins vegar til tímabilsins 2015-2018. Á því tímabili er áætlað að leggja 360 milljónir í þessa leið. Ritstjórn er ekki ljóst hvort að verkefni eins og breikkun einbreiða malbiksins í Bitrunni telst til viðhaldsverkefna eða nýbyggingar.

Fjármagni til svokallaðra ferðamannaleiða sem Strandavegur (nr. 643) telst til frá vegamótum í Staðardal og norður í Árneshrepp er ekki skipt á milli vega í Norðvesturkjördæmi í tillögunni. Það verður gert við afgreiðslu áætlunarinnar á Alþingi, en heildarframlagið til ferðamannaleiða í Norðvesturkjördæmi er 70 milljónir hvort árið 2007 og 2008 og 69 milljónir hvort árið 2009 og 2010.

Sama gildir um tengivegi utan grunnnets, að fjármagni í þá er ekki að öllu leyti skipt milli verkefna í áætluninni. Vegurinn frá Staðará að Drangsnesi er hinsvegar skilgreindur sem hluti af grunnnetinu og virðist mega ráða af samgönguáætlun til lengri tíma að ekki sé gert ráð fyrir fjármagni í hann á tímabilinu 2007-2010, heldur sé áætlað fjármagn í þann vegaspotta á árunum 2011-2014. Þá eru 280 milljónir settar í verkþátt sem kallaður er Strandavegur, Djúpvegur-Drangsnes.

Loks má nefna að áætlaðar eru 265 milljónir eru áætlaðar í lagfæringar á hringveginum í Hrútafirði árin 2007 og 2008.