12/09/2024

Rýnt í Fiska á þurru landi

Leikfélag Hólmavíkur frumsýndi í gær leikritið Fiskar á þurru landi eftir Árna Ibsen og var gerður góður rómur að. Vefnum strandir.saudfjarsetur.is hefur borist fyrsta leikhúsgagnrýnin sem er birt hér að neðan, en það var Áskell Benediktsson á Hnitbjörgum sem setti saman gagnrýni eftir frumsýninguna. Næstu sýningar eru á laugardag og mánudag og hefjast báðar kl. 20:00 í Bragganum á Hólmavík. Einnig er ritstjórn kunnugt um sýningu í Ketilási í Fljótum laugardaginn 22. apríl, kl. 21:00.

Leikhúsrýni – Leikfélag Hólmavíkur: Fiskar á þurru landi
Höf. Áskell Benediktsson, Hnitbjörgum

Fimmtudaginn 13. apríl frumsýndi Leikfélag Hólmavíkur Fiska á þurru landi eftir Árna Ibsen. Leikstjóri er Kolbrún Erna Pétursdóttir.

Þetta er frekar stutt verk og dálítið efnislítið, að mér finnst. Þó er smá söguþráður sem flytjendur, það er leikarar og leikstjóri, geta haft að leiðarljósi. Mér virtist þetta fólk taka þann pól í hæðina að draga sem mest fram það skoplega sem handritið hefur upp á að bjóða og það tókst á köflum .þó nokkuð vel, þó sum staðar kæmu hálf dauðir punktar.

Þegar maður ætlar að dæma um svona sýningu er tvennt sem maður hefur í huga. Þetta fólk sem er á leiksviðinu er áhugafólk um leiklist sem hefur ekki lært að ráði sviðsframkomu og þetta er fólk sem vinnur fullan vinnudag. Þetta er nætur og helgidagavinna. Þar af leiðiandi þarf ómælda orku og dugnað ef árangur á að nást. Þá er líka stuðningur þeirra sem eru að aðstoða mikilvægur.

Þessi frumsýning tókst vel og má fullyrða að þeir sem höfðu ekki gaman af að horfa og hlusta eru mjög fátækir af húmor. Það er fólk sem ekki á að fara í leikhús en sitja bara heima í fýlu. Ég þakka leikurum og starfsfólki fyrir skemmtilega kvöldstund og ég ætla að koma aftur og klappa fyrir ykkur. Það má ekki minna vera en að sjá tvær eða kannski þrjár sýningar. Kærar þakkir fyrir góða skemmtun.

Ási á Hnitbjörgum.